„Þegar þér finnst þingflokkurinn vera farinn að svíkja það sem flokkurinn var kosinn fyrir,“ segir stjórnmálafræðingurinn Viktor Orri Valgarðsson þegar hann er spurður hvenær sé heppilegast fyrir þingmann að láta vaða ef hann ætlar sér að skipta um flokk.

„Eða alla vega þegar hann er yfirhöfuð byrjaður að starfa. Kannski er kaffið verulega vont?“

Eru færin árstíðabundin? Ætti viðkomandi til dæmis frekar að taka stökkið að vori en hausti?

„Í kringum jólin, þegar enginn nennir að pæla í pólitík,“ segir Viktor Orri og bendir jafnframt á að flokkaflakk er yfirleitt hvorki fallið til vinsælda né framlengingar á pólitísku lífi.

„Nei, þetta er alls ekki líklegt til vinsælda, en óvíst að kjósendur Sjálfstæðisflokksins kippi sér mikið upp við þetta,“ segir Viktor Orri um óvænt vistaskipti Birgis Þórarinssonar. „Ég tel talsvert meiri líkur en minni á að þetta verði hans síðasta kjörtímabil sem hann hefur sennilega vitað þegar hann tók ákvörðunina.“