Þjóðleikhúsið auglýsti á dögunum eftir nýjum leikritum fyrir börn. Um 150 umsóknir bárust. Leikhúsið festi sér tvö verk, annars vegar leikrit eftir nýjan höfund, Gunnar Eiríksson, sem sýnt verður strax á næsta leikári, og hins vegar verk eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur, sem verður þróað áfram innan leikhússins. Nokkur fleiri leikverk voru valin til nánari skoðunar og þróunar innan leikhússins.
Kafbátur er fyrsta leikrit Gunnars, en hann hefur starfað sem leikari í leikhúsi, kvikmyndum og sjónvarpi í Noregi á liðnum árum, auk þess sem hann hefur samið tónlist fyrir leikhús. Verkið gerist um borð í kafbáti, en þetta er ansi óvenjulegur kafbátur, fullur af skrýtnum og skemmtilegum uppfinningum, sem siglir um höfin í ókominni framtíð, með litla stelpu og föður hennar innanborðs. Á ferð með þeim er einnig áll, sem sér þeim fyrir rafmagni, auk þess sem fleiri litríkar persónur koma óvænt við sögu.
Hugmynd Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur, að fjölskyldusöngleik byggðum á sagnaheimi hennar um Úlf og Eddu, þótti einnig einstaklega hrífandi, og ákveðið var að hefja strax vinnu við að þróa verkið fyrir Stóra sviðið. Kristín Ragna Gunnarsdóttir hefur vakið mikla athygli fyrir bækur, myndskreytingar og barnasýningar byggðar á norrænum goðsögnum og hlotið margs konar verðlaun.