Hildigunnur byrjaði árið 1997 að búa til litla jólasveina úr afklippum til að hengja upp. Hún segir að það hafi verið upphafið á endurnýtingu hennar á trjám. Seinna fór hún að leika sér að tálga úr afklippunum og bjó til engla, hálsmen og ýmislegt skraut.

„Það var svo jólin 2017 sem ég óskaði eftir því á Facebook við vini mína að fá trén þeirra eftir jólin. Þá hafði ég verið að búa til jólasveina út mínu eigin tré og ég birti myndir af þeim á Facebook. Ég lofaði að allir myndu fá jólasvein úr sínu eigin tré,“ útskýrir Hildigunnur.

Það fór svo að hún fór að sækja jólatré út um allan bæ en sumir skildu líka jólatrén eftir fyrir utan heima hjá henni. Hildigunnur merkti hvert einasta tré til að vita hver ætti hvað.

„Fyrstu jólin voru yfir 30 manns sem gáfu mér jólatré, svo komu færri næstu jól eftir það, en ég átti fullt af trjám af því ég hef líka sótt tré á Sorpu. En ég neita fólki yfirleitt ekki ef það vill koma með tré,“ segir hún.

Hildigunnur notar góða veðrið á sumrin til að saga trén niður eins og hún vill hafa þau. Hún setur þau svo í bréfpoka og merkir þá eiganda trésins. Fyrir jólin keyrir hún svo út jólasveina til fólksins sem gaf henni tré árið áður.

Hildigunnur segir að mikil vinna búi að baki hverjum sveini. Fyrst þarf að saga stofninn og snyrta og svo er hann tálgaður. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Fólkið sem átti tréð fær að velja sér einn karl til að eiga

„Yfirleitt þegar ég er búin að vinna hvert og eitt tré þá sendi ég mynd á þann sem átti tréð og bið fólk að velja sér einn karl, fólk gerir það og stundum vill það kaupa fleiri karla úr sínu tré,“ segir hún.

„Ég er ekki mikil sölukona og finnst erfitt að markaðssetja mig en fyrir síðustu jól og jólin þar á undan var ég með opið hús heima hjá mér þar sem fólk gat skoðað jólasveinana og keypt þá. Ég gerði það samt ekki fyrir þessi jól út af COVID,“ upplýsir hún.

Hildigunnur útskýrir að bak við hvern svein sé mikil vinna. „Fyrst þarf að saga stofninn niður og snyrta hann. Oft eru miklar pælingar hvar á að saga til að þetta komi sem best út. Ég nota síðan tálguhníf til að laga til alla endana. Málningarvinnan er líka drjúg. Ég mála allt tvisvar sinnum og nota málningu sem þolir að vera úti. Það eru alltaf einhverjir sem vilja hafa karlana úti, sérstaklega þessa stóru.“

Jólasveinarnir eru skemmtilegir og hægt er að nota þá til að skreyta úti og inni. MYND/AÐSEND

Hildigunnur hefur unnið mikið úr normannsþin en hún segir gott að nota hann því það er svo mikið af greinum á honum.

„Maður fær svo fjölbreyttan stofn úr normannsþininum. Það er hægt að nota greinarnar fyrir nef og hendur, fyrir skúf í húfu og fætur. En ef fólk er með furu þá tek ég hana líka en þá verða jólasveinarnir einfaldari, það eru færri greinar sem koma úr furunni.“

Hildigunnur er útskrifaður textílhönnuður og hugsar mikið um að búa til verðmæti úr verðlausu. Hún þæfir efni og saumar kjóla á englana sem hún hefur tálgað og reynir alltaf að halda efniskostnaði í lágmarki. Karlana býr Hildigunnur til heima hjá sér.

Endurnýtir mikið

„Ég er svolítið „húkt“ á endurnýtingu. Ég endurnýti mikið í öllu sem ég geri. Mér finnst þetta voða gaman. Áður en ég byrjaði á körlunum þá hafði ég aldrei séð neitt líkt þeim.

Hugmyndin kviknaði bara þegar stofninn af mínu jólatré var búinn að vera veltast á pallinum hjá mér eitt sumarið. Ég næ að gera í mesta lagi tíu karla úr einu tré, en þeir eru þá misstórir, oftast geri ég svona fimm til sex karla úr einu tré. Englana bý ég bara til úr litlum stubbagreinum. Oftast úr birki,“ segir Hildigunnur.

Jólasveinarnir eru alveg frá svona 15 cm háir og upp í 50 cm en hún segir að algengast sé að þeir séu svona 30-35 cm.

„Draumurinn væri að það væri einhver staður sem ég gæti selt karlana mína á. Mér finnst svo gaman að búa þá til en er vonlaus sölumanneskja og að koma þeim á framfæri,“ segir hún og hlær.

„Best væri auðvitað að geta bara gefið þá, en líka gott að fá eitthvað fyrir vinnuna sína, því það er heilmikil vinna við hvern svein."

Stubbar greinanna nýtast sem hendur fætur, nef og skúfur á húfu.
Minni sveinana má til dæmis nota sem skraut til að hengja á jólatréð.
Hildigunnur hefur einnig tálgað engla og saumað á þá kjóla úr þæfðu efni.