Leikhópurinn Miðnætti frumsýnir Jólasýningu Þorra og Þuru um helgina þannig að Agnes Wild, höfundur verksins, og hin í hópnum hafa haft í nógu að snúast, þar sem þau hafa verið að æfa tvær aðrar sýningar, Leitina að jólunum og hina geysivinsælu barnaleiksýningu Tjaldið, sem er sýnd í Borgarleikhúsinu.

„Það gengur mjög vel og við erum mjög tilbúin fyrir helgina,“ segir Agnes, en auk Jólasýningar Þorra og Þuru er hópurinn að fara að leggja upp í sýningarferðalag á leikskóla víðs vegar um landið með Leitina að jólunum.

Allt tengist þetta síðan, þar sem persónurnar Eysteinn og Hulda, úr farandsýningunni eru einnig kunnuglegir karakterar úr heimi Þorra og Þuru.

Covid strik í reikninginn

Í raun er um endurfrumsýningu á Jólasýningu Þorra og Þuru um helgina að ræða, en verkið var fyrst sýnt árið 2019 og síðan náðist einungis ein sýningarhelgi í fyrra vegna kófsins mikla.

„En þetta er samt svona þriðja árið sem við sýnum þetta,“ segir Agnes. Birna Pétursdóttir bætist í hóp leikara að þessu sinni og fer með hlutverk Þuru í stað Sigrúnar Harðardóttur.

„Þannig að þetta er frumsýningin hennar um helgina,“ bætir Agnes við lauflétt og er tilbúin til að fallast á að það sé uppsöfnuð eftirspurn eftir jólasýningum eins og þessari vegna hrakfaranna í fyrra.

„Ég held það. Salan gengur mjög vel og við vorum að bæta við aukasýningu til að þjóna eftirspurninni. Það var auðvitað mjög leiðinlegt í fyrra að komast svona lítið í þessar jólasýningar og frábært að það sé hægt að gera fólki kleift að heimsækja leikhús í ár,“ segir Agnes.

„Það er líka svo jólalegt og gaman að fara í sparifötin og fara í leikhúsið á jólasýningu. Leikmyndin hjá okkur er líka svo ótrúlega falleg og svo jólaleg og það eru jólatré og jólasnjór og þetta er algjör ævintýraheimur hjá okkur í Tjarnarbíói.“

Hópurinn gaf nýverið út bókina Þorra og Þuru og jólakristalinn. „Hún er upp úr sögunni á leiksýningunni. Þannig að fólk getur farið á sýninguna og haldið svo áfram að lesa heima. Þannig að þetta er bæði frumsýning hjá okkur og eiginlega svona útgáfuhelgi líka.“