Kammer­sveit Reykja­víkur heldur sína ár­legu jóla­tón­leika í Norður­ljósum Hörpu á morgun, sunnu­daginn 4. desember, klukkan 16. Þema tón­leikanna að þessu sinni er barokk í norðri, en á efnis­skrá eru verk sem öll tengjast norður­hluta Evrópu og eru eftir tón­skáld sem áttu ættir að rekja til eða störfuðu í Þýska­landi, Dan­mörku, Sví­þjóð og Noregi. Einnig verða frum­fluttar nýjar út­setningar á ís­lenskum þjóð­lögum og jóla­lögum eftir selló­leikara sveitarinnar, Hrafn­kel Orra Egils­son. Ein­leikari er Ás­hildur Haralds­dóttir flautu­leikari.

„Við Ís­lendingar eigum því miður lítið af tón­skáldum frá þessum tíma en þess í stað verða frum­fluttar nýjar út­setningar við tvö þjóð­lög sem tengjast jóla­há­tíðinni sem og eitt af okkar þekktustu jóla­lögum, Nóttin var sú ágæt ein eftir Sig­valda Kalda­lóns,“ segir Hrafn­kell Orri.

Tón­leikarnir verða hljóð­ritaðir af Ríkis­út­varpinu og eru fram­lag Rásar 1 til Jóla­tón­leika­dags Sam­bands evrópskra út­varps­stöðva þann 18. desember og verður út­varpað í yfir 15 löndum, þar á meðal Bret­landi, Dan­mörku, Finn­landi og Ástralíu.

Franz Benda var fæddur í Bæ­heimi en starfaði við hirð Frið­riks hins mikla í Pots­dam. Ein­leikari í flautu­kon­serti hans er Ás­hildur Haralds­dóttir. Johan Daniel Berlin var Prússi, fæddur þar sem nú er Litáen, en starfaði í Þránd­heimi. Dietrich Buxtehu­de fæddist í Helsingja­borg í Sví­þjóð. Hann er senni­lega þekktastur fyrir störf sín sem orgel­leikari í Lübeck, en sagt er að Johann Sebastian Bach hafi ferðast fót­gangandi um 400 kíló­metra til að hlýða á leik hans. Johan Helmich Roman var fæddur í Stokk­hólmi og starfaði við hirðina þar. Hann lærði tón­smíðar meðal annars hjá Georg Fri­edrich Händel og hefur oft verið nefndur „hinn sænski Händel“.