Kammersveit Reykjavíkur heldur sína árlegu jólatónleika í Norðurljósum Hörpu á morgun, sunnudaginn 4. desember, klukkan 16. Þema tónleikanna að þessu sinni er barokk í norðri, en á efnisskrá eru verk sem öll tengjast norðurhluta Evrópu og eru eftir tónskáld sem áttu ættir að rekja til eða störfuðu í Þýskalandi, Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Einnig verða frumfluttar nýjar útsetningar á íslenskum þjóðlögum og jólalögum eftir sellóleikara sveitarinnar, Hrafnkel Orra Egilsson. Einleikari er Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari.
„Við Íslendingar eigum því miður lítið af tónskáldum frá þessum tíma en þess í stað verða frumfluttar nýjar útsetningar við tvö þjóðlög sem tengjast jólahátíðinni sem og eitt af okkar þekktustu jólalögum, Nóttin var sú ágæt ein eftir Sigvalda Kaldalóns,“ segir Hrafnkell Orri.
Tónleikarnir verða hljóðritaðir af Ríkisútvarpinu og eru framlag Rásar 1 til Jólatónleikadags Sambands evrópskra útvarpsstöðva þann 18. desember og verður útvarpað í yfir 15 löndum, þar á meðal Bretlandi, Danmörku, Finnlandi og Ástralíu.
Franz Benda var fæddur í Bæheimi en starfaði við hirð Friðriks hins mikla í Potsdam. Einleikari í flautukonserti hans er Áshildur Haraldsdóttir. Johan Daniel Berlin var Prússi, fæddur þar sem nú er Litáen, en starfaði í Þrándheimi. Dietrich Buxtehude fæddist í Helsingjaborg í Svíþjóð. Hann er sennilega þekktastur fyrir störf sín sem orgelleikari í Lübeck, en sagt er að Johann Sebastian Bach hafi ferðast fótgangandi um 400 kílómetra til að hlýða á leik hans. Johan Helmich Roman var fæddur í Stokkhólmi og starfaði við hirðina þar. Hann lærði tónsmíðar meðal annars hjá Georg Friedrich Händel og hefur oft verið nefndur „hinn sænski Händel“.