Sólveig býr í Vatnsendanum, sem margir kalla sveit í borg. Hún býr með Hilmari Inga Ómarssyni vélstjóra. „Ég á tvær duglegar og flottar stelpur, Möndu og Máney, og hund sem heitir Freyja. Áhugamál mín eru klárlega framkvæmdir, byggja, breyta og bæta. Ég er forfallinn framkvæmdafíkill. Ef ég er ekki í framkvæmdum þá er ég nýbúin eða rétt að byrja. Svo er það ræktin en ég er í þjálfun hjá Kojak sem er með aðstöðu á hæðinni fyrir ofan Mathöllina. Hann gargar á mig og ýtir mér út úr comfort-zone-inu sem ég var komin með lögheimili í, áður en ég byrjaði hjá honum. Útilegur, skíði og ferðalög er líka ofarlega á listanum.“

Áhugi á að borða góðan mat

Hvernig kom það til að þú opnaðir Mathöll Höfða?

„Það var ljóst að mikill áhugi var hjá fólki fyrir þessu fyrirkomulagi sem mathallir eru. Þessi þróun er um heim allan, ekki bara hér á landi. Það er svo mikil hagræðing í því að geta farið á einn stað en eiga val um að versla á mörgum mismunandi veitingastöðum.“

Stór og falleg bambusljós prýða eitt rýmið sem koma frá Balika og síðan er veggljósin sem gefa frá sér skemmtilega birtu en þau eru frá Tekk.

Finnst þér „streetfood“ matur, eða götumatur, á Íslandi vera í mikilli sókn?

„Já, svo virðist vera. Ég er nú reyndar alltaf soldið skeptísk á þessa skilgreiningu á streetfood-stöðum. Við sjáum allavega mikinn áhuga fólks á að borða góðan mat úr vönduðu hráefni sem borinn er fram á einfaldan hátt. Fólk þjónar sér sjálft svo það sparar en fær samt vandaðan mat.“ Gaman er sjá matarflóruna sem er í boði í Mathöll Höfða, hægt er að finna eitthvað frá öllum heimshornum. „Við vildum auðvitað fjölbreytni og reyndum að velja ólíka staði. Það var samt smá heppni að enda með þetta frábæra úrval frá öllum heimshornum.“

Vinsælt svæði og ört stækkandi

Staðsetningin virðist virka mjög vel og byggðin á svæðinu fer ört stækkandi. „Þetta svæði er mjög vinsælt atvinnusvæði, sem gerir góða traffík í hádeginu og yfir daginn. En það sem kannski kemur á óvart þegar betur er skoðað er stóra íbúðabyggðin sem er að rísa allt um kring. Við erum nálægt Árbæ, Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarsárdal og ekki svo langt frá Mosó og Breiðholti líka. Sem sagt öll þessi efri byggð er að koma til okkar og það finnst okkur frábært. Þarna verður þéttbýlt íbúðahverfi og ein aðalstoppustöð Borgarlínunnar rétt fyrir neðan. Þannig að það eru virkilega spennandi tímar fram undan.“

Gaman er að er sjá matar­flóruna sem er í boði í Mathöll Höfða og hægt að finna eitthvað frá öllum heimshornum.

Risastór kristalsljósakróna

Hver og einn bás í Mathöllinni hafði frelsi til að hanna svæðið og útkoman varð eins og best var á kosið. „Ég reyndi að skapa þannig stíl í Mathöllinni að þetta myndi allt passa saman,“ segir Sólveig. Í sumar stóð Sólveig og hennar fólk í stórræðum og stækkuðu Mathöllina til muna með skemmtilegum útfærslum.

Hvaðan kom innblásturinn?

„Innblásturinn kemur frá sögunni og umhverfinu. Mér finnst ávallt skemmtilegt að blanda grófu og fínu, nýju og gömlu. Það er áskorun að gera það vel og alltaf spennandi að sjá útkomuna. Maður veit aldrei alveg hvernig útkoman verður fyrr en allt smellur saman í lokin. Ég notaði upphaflega mikið kaðla, hráar spýtur og gömul kefli frá Hampiðjunni sem voru þarna upphaflega. Ég lét setja risastóra kristalsljósakrónu upp og flauelssófa með stungnu baki. Nýi salurinn er allt öðruvísi, sams konar sófi en gamaldags pottjárnsborðfætur, gegnheil eik og stór bambusljós sem setja punktinn yfir i-ið.“ Lýsingin er sérstaklega falleg og vekur eftirtekt gesta. Stór og falleg bambusljós prýða eitt rýmið sem koma frá Balika og veggljósin sem gefa frá sér skemmtilega birtu eru frá Tekk.

Áhersla á jólastemningu

Sólveig segir að þau hafi fundið mikinn mun á aðsókninni í Mathöllina eftir breytingarnar og fjölgun veitingastaða hafi líka mikil áhrif. „Við vorum að klára metmánuð hjá okkur og fólk er greinilega ánægt með stækkunina og fjölbreytnina. Pastagerðin og Dragon DimSum hafa fengið frábærar móttökur enda ljúffengur matur og ekkert svipað að fá á þessum slóðum.

Við munum leggja áherslu á notalega jólastemningu og ætlum að skreyta höllina og spila jólalög í bland við venjuleg. Umfram allt viljum við bjóða upp á góðan mat á góðu verði, það þarf ekki að kosta mikið að gera sér glaðan dag með fjölskyldu og vinum.“

Ertu til í að ljóstra upp hvað þér finnst best að borða?

„Já, það er nú samt erfitt að svara. En ég á mér uppáhaldsrétt á öllum stöðunum. Það fer eftir hvernig skapi ég er í hvert ég fer. Tacoið og Ketóskálin á Culiacan hentar mjög vel núna þar sem ég er að reyna að sleppa glúteni. En ég get líka fengið mér Zucchini-pasta á Pastagerðinni, hrísgrjónanúðlur á Wok-on eða Maikai skál hjá Sætum Snúðum.“

Bjór og dumplings

Hvað er það frumlegasta sem þú hefur bragðað í Mathöllinni? Eða komið þér mest á óvart?

„Ætli það sé ekki dumplings frá Dragon Dim Sum. Virkilega gott og ég elska að geta fengið edamame-baunir og salat með. Þetta er spari hjá mér og þá fæ ég mér auðvitað bjór með. Bjór og dumplings eru gott kombó.“

Sólveig vill að lokum endilega hvetja alla til að koma með fólkið sitt til þeirra. „Mathöll Höfða er svo sannarlega staður þar sem fólk borðar saman.“ Þá má geta þess að Mathöll Höfða er opin alla daga 11.30-21.00 og hægt er að fylgja henni á Facebook og Instagram @matholl_hofda. ■