Salka Sól hefur verið áberandi á árinu enda hefur verið mikið að gera hjá henni í alls kyns verkefnum, jafnt á sviði tónlistarinnar og leikhússins. Hún er enn í fullri vinnu þótt hún ætli að taka aðeins rólegri aðventu núna miðað við í fyrra.

„Þetta verða kannski svolítið öðruvísi jól en samt kunnugleg. Ég virðist hafa einn fengitíma sem þýðir að börnin fæðast á þessum árstíma,“ segir Salka hress í bragði.

„Fyrir tveimur árum var ég að syngja á jólatónleikum allan desember og þeir síðustu voru fjórum dögum fyrir fæðingu, en það var á Jülevenner Emmsjé Gauta og ég verð aftur með honum núna fyrir jólin. Mér finnst gaman að hafa eitthvað fyrir stafni, það er ekki mikið mál að koma fram og syngja. Ég tek því rólega á milli gigga, verð með Stórsveitinni í byrjun desember sem mér finnst alltaf sérstaklega skemmtilegt,“ segir Salka, en nýlega var frumsýnd kvikmyndin Birta þar sem hún leikur eitt aðalhlutverkanna.

Salka segir að þar sem hún byrji yfirleitt snemma að æfa jólalögin fyrir tónleika hefjist jólatíminn snemma hjá henni.
Fréttablaðið/Valli

Jólahefðir í hundrað ár

Salka hefur auk þessa verið að gera tónlist fyrir nýtt jólaleikrit, Jólaboðið, sem Vesturport er að setja upp í samstarfi við Þjóðleikhúsið og Gísli Örn leikstýrir.

„Þetta er flott leikrit sem fjallar um jólahald hjá sömu fjölskyldunni yfir hundrað ára tímabil. Áhorfendur fá að skyggnast inn í jólahefðir og siði íslenskrar fjölskyldu í gegnum árin. Um leið er þetta fjölskyldusaga, bæði gleði og sorg. Leikritið verður einmitt frumsýnt í dag. Við vonumst til að það verði síðan sýnt árlega á aðventu,“ segir Salka, sem er tónlistarstjóri sýningarinnar og sér um alla tónlist ásamt Tómasi Jónssyni píanóleikara. „Við erum búin að semja nýtt jólalag í tengslum við sýninguna. Leikritið átti að frumsýna um síðustu jól en þau plön breyttust vegna Covid. Það eru kannski aðeins breyttar aðstæður hjá mér núna, komin næstum átta mánuði á leið,“ segir Salka og getur ekki annað en hlegið eins og henni einni er lagið.

Þegar hún er spurð hvort hún kannist við eitthvað af þessum hefðum sem koma fyrir í leikritinu, svarar hún því játandi.

„Það eru nokkrar hefðir í minni fjölskyldu sem eru órjúfanlegur partur af jólunum. Til dæmis laufabrauðsgerð. Faðir minn kemur að norðan og það eru nokkrar hefðir komnar frá honum. Meðal þess er að möndlugrauturinn er alltaf hafður í hádeginu á aðfangadag. Maðurinn minn er líka að norðan svo við höfum alist upp við svipaðar hefðir. Við munum örugglega halda í þær þegar við förum að halda okkar jól heima,“ segir hún.

„Hingað til höfum við skipst á að vera hjá foreldrum okkar á aðfangadagskvöld. Núna er aðeins meira rifist um mann þegar barn hefur bæst í hópinn, en það styttist örugglega í að við höldum okkar jól þegar við verðum komin með tvö börn,“ segir Salka.

Piparkökudagur hjá vinahópi

„Það er ekki langt síðan ég varð svona jólastelpa. Ég reyni að lýsa upp skammdegið eins mikið og hægt er. Jólatréð fer snemma upp og ég sanka að mér jólailmkertum sem ég kveiki á strax í nóvember. Ég var mjög ýkt í jólastemningu þegar ég gekk með fyrra barnið vegna spennings. Ætli ég hafi ekki haldið að ef jólin kæmu fyrr myndi barnið fæðast fyrr. Núna er ég jafnspennt og er alltaf að skoða fallega jólahluti í búðum. Þegar ég var í menntaskóla var próflestur iðulega í desember og ekki mikill tími til að jólaskreyta, frekar að það væri prófastress á þessum árstíma. Núna getur maður notið þess að hlakka til jólanna. Margt breytist þegar barn kemur í heiminn og núna er ég að plana piparkökudag með vinum okkar. Þá verða bakaðar piparkökur og skreyttar. Ég hugsa mjög fallega til minninga frá minni eigin æsku. Þá voru alltaf bakaðar piparkökur fyrir jól og við skreyttum þær saman öll fjölskyldan. Nú langar mig að gera þetta með dóttur minni,“ segir hún.

„Hingað til höfum við skipst á að vera hjá foreldrum okkar á aðfangadagskvöld. Núna er aðeins meira rifist um mann þegar barn hefur bæst í hópinn, en það styttist örugglega í að við höldum okkar jól þegar við verðum komin með tvö börn,“ segir Salka.
Fréttablaðið/Valli

Margir forréttir á borðum

Þegar Salka er spurð um matarhefðir á jólum segir hún að faðir hennar, Hjálmar Hjálmarsson leikari, sé einstakur snillingur í eldhúsinu.

„Hann er mjög flinkur ástríðukokkur. Heimagerða rauðkálið hans er svo gott að það er hægt að borða það eintómt. Hann setur það í jólabúning með hlynsírópi, hnetublöndu, salti, pipar, smjöri og kannski smá kanil. Það kemur yndislegur jólailmur í húsið með rauðkálinu. Undanfarin ár höfum við fjölskyldan verið forréttasjúk. Nokkrir forréttir eru í boði, til dæmis er alltaf humar í rjómasósu, alls konar paté og aðrir smáréttir. Í staðinn er minna borðað af hamborgarhryggnum eða hnetusteikinni, eða hverju því sem er á borðum. Svo er heimagerður ís á eftir. Venjurnar hafa breyst eftir því sem við systkinin verðum eldri, sérstaklega þegar við áttuðum okkur á að forréttir væru í miklu uppáhaldi. Pabbi kemur okkur á óvart í snilli sinni um hver jól. Að öðru leyti ætla ég að taka því rólega um jólin og undirbúa komu barnsins.“

Mikil stemningskona

Salka segir að þar sem hún byrji yfirleitt snemma að æfa jólalögin fyrir tónleika hefjist jólatíminn snemma hjá henni.

„Ég er svo mikil stemningskona. Allt sem framkallar stemningu, eins og hrekkjavakan, sem Íslendingar hafa verið að taka upp, finnst mér ótrúlega spennandi. Þetta gerir lífið skemmtilegra.“

Salka skellir upp úr þegar blaðamaður spyr hvort hún ætli að halda í hefðina og koma með þriðja barnið eftir tvö ár.

„Það er að minnsta kosti ekki á planinu,“ segir hún. „Ég finn mun á þessari meðgöngu og hinni fyrri þar sem ég er með ungt barn sem þarf umönnun. Síðast taldi ég daga og vikur en er ekkert að spá í það núna. Það verður síðan nóg að gera á næsta ári að halda jól og síðan tvö barnaafmæli með stuttu millibili.

Þar sem ég er mikið jólabarn er ég farin að hlakka mikið til jólanna. Mér finnst laufabrauðsgerðin til dæmis skemmtileg. Við búum til deigið og skerum út kökurnar. Síðan höfum við prófað nýjungar, til dæmis að nota spelt, heilhveiti, kúmen eða súrdeig. Svo gerum við soðbrauð og steikjum afganga,“ segir Salka og bætir við að hún ætli svo sannarlega að njóta aðventunnar. „Það verður minna að gera hjá mér fyrir þessi jól heldur en mörg önnur. Ég hagræddi vinnu minni þannig í kringum jólin. Ég verð auðvitað með Helga Björns í lokaþættinum á laugardaginn,“ segir hún.

Stutt fæðingarorlof

„Ég er mjög ánægð með þá hvatningu að setja upp jólaljósin snemma. Það er svo dimmt hjá okkur og frábært að lýsa upp skammdegið. Ég hlakka til að sitja á náttfötunum og prjóna á milli jóla og áramóta. Ég er búin að prjóna heimferðarföt á soninn. Undanfarið hef ég prjónað mikið af ungbarnafatnaði. Tíminn á milli jóla og nýárs er svo göldróttur, allt svo kósí og rólegt. Fæðingarorlofið verður stutt því ég er að æfa nýjan söngleik, Sem á himni, sem verður frumsýndur í Þjóðleikhúsinu um páskana. Þar fer ég með aðalhlutverk á móti Elmari Gilbertssyni. Við æfðum í nokkrar vikur í haust og förum aftur í gang í mars. Mér finnst æðislegt að hafa nóg að gera og er þakklát fyrir að vinna í þessum bransa.“

Salka skellir upp úr þegar blaðamaður spyr hvort hún ætli að halda í hefðina og koma með þriðja barnið eftir tvö ár.
Fréttablaðið/Valli