Hafn­firðingar bjóða gestum í jóla­þorpið á Thorsplani í tuttugasta sinn. Jóla­þorpið verður opnað klukkan 17.00 í dag og verður þar opið allar helgar til jóla, föstu­daga frá 17 til 21 og laugar­daga og sunnu­daga milli 13 og 18. Á­kveðið hefur verið að opna jóla­þorpið viku fyrr þetta árið og segir verk­efna­stjóri hjá bæjar­skrif­stofu það gert til að tryggja að sem flestir komist.

Lúðra­sveit Hafnar­fjarðar og Karla­kórinn Þrestir flytja jóla­lög fyrir við­stadda í dag klukkan 17.30, áður en jóla­ljósin verða tendruð á trénu sem er gjöf frá Cux­ha­ven, vina­bæ Hafnar­fjarðar í Þýska­landi. Tón­listar­konan Klara Elías stígur næst á svið og flytur tvö lög, annað þeirra nýtt jóla­lag. Hafn­firðingar klæða bæinn í ær­legan jóla­búning á að­ventunni og á vef bæjarins má finna sér­stakt kort með jóla­leið sem stikuð hefur verið um bæinn.

Jólaþorpið eins og það leit út árið 2012 en þorpið á sér langa sögu í Hafnarfjarðarbæ.
Fréttablaðið/ERNIR

„Þetta byrjaði fyrir 20 árum síðan,“ segir Andri Ómars­son, verk­efna­stjóri hjá Hafnar­fjarðar­bæ. Hann út­skýrir til­drög jóla­bæjarins Hafnar­fjarðar þannig, að á bæjar­skrif­stofunni hafi starfað mikið jóla­barn sem hafði kynnst jóla­mörkuðum í Þýska­landi og flutt hefðina heim. „Þetta var Anna Sigur­borg, sviðs­stjóri þjónustu- og þróunar­sviðs,“ segir Andri og minnir á að þó að Anna Sigur­borg hafi vissu­lega verið frum­kvöðullinn hafi þetta verið margra manna sam­eigin­legt verk­efni og fjöldi fólks komi að því að klæða bæinn í jóla­búning ár hvert.

„Við höfum lagt gríðar­lega á­herslu á þetta undan­farin ár, og erum farin að tala um jóla­bæinn Hafnar­fjörð,“ segir Andri. Hann segir mikla til­hlökkun ríkja í bænum og búið sé að skreyta helstu al­mennings­garða.

Andri rifjar upp eina eftir­lætis minningu frá að­ventunni í Hafnar­fjarðar­bæ, frá sam­komu­tak­mörkunum árið 2020. Þá hafi bæjar­búar hist í Hellis­gerði til að skiptast á jóla­gjöfum og nýtt svæðið til dýr­mætrar fjöl­skyldu­sam­veru. „Það er svo dá­sam­legt að vita af svona sögum, að fólk sé að nota svæðið til að hittast og koma saman,“ segir hann.