Hafnfirðingar bjóða gestum í jólaþorpið á Thorsplani í tuttugasta sinn. Jólaþorpið verður opnað klukkan 17.00 í dag og verður þar opið allar helgar til jóla, föstudaga frá 17 til 21 og laugardaga og sunnudaga milli 13 og 18. Ákveðið hefur verið að opna jólaþorpið viku fyrr þetta árið og segir verkefnastjóri hjá bæjarskrifstofu það gert til að tryggja að sem flestir komist.
Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Karlakórinn Þrestir flytja jólalög fyrir viðstadda í dag klukkan 17.30, áður en jólaljósin verða tendruð á trénu sem er gjöf frá Cuxhaven, vinabæ Hafnarfjarðar í Þýskalandi. Tónlistarkonan Klara Elías stígur næst á svið og flytur tvö lög, annað þeirra nýtt jólalag. Hafnfirðingar klæða bæinn í ærlegan jólabúning á aðventunni og á vef bæjarins má finna sérstakt kort með jólaleið sem stikuð hefur verið um bæinn.

„Þetta byrjaði fyrir 20 árum síðan,“ segir Andri Ómarsson, verkefnastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ. Hann útskýrir tildrög jólabæjarins Hafnarfjarðar þannig, að á bæjarskrifstofunni hafi starfað mikið jólabarn sem hafði kynnst jólamörkuðum í Þýskalandi og flutt hefðina heim. „Þetta var Anna Sigurborg, sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs,“ segir Andri og minnir á að þó að Anna Sigurborg hafi vissulega verið frumkvöðullinn hafi þetta verið margra manna sameiginlegt verkefni og fjöldi fólks komi að því að klæða bæinn í jólabúning ár hvert.
„Við höfum lagt gríðarlega áherslu á þetta undanfarin ár, og erum farin að tala um jólabæinn Hafnarfjörð,“ segir Andri. Hann segir mikla tilhlökkun ríkja í bænum og búið sé að skreyta helstu almenningsgarða.
Andri rifjar upp eina eftirlætis minningu frá aðventunni í Hafnarfjarðarbæ, frá samkomutakmörkunum árið 2020. Þá hafi bæjarbúar hist í Hellisgerði til að skiptast á jólagjöfum og nýtt svæðið til dýrmætrar fjölskyldusamveru. „Það er svo dásamlegt að vita af svona sögum, að fólk sé að nota svæðið til að hittast og koma saman,“ segir hann.