María er gift Ragnari Má Reynissyni og eiga þau stóra fjölskyldu, fjögur börn og einn tengdason. María heldur úti matarbloggi á Paz.is og deilir þar uppskriftum ásamt góðum innanhússráðum og heldur einnig úti vinsælum Instagramreikningi með sama nafni eða @‌paz.is. María hefur gaman af því að baka en segist þó taka það í skorpum. „Ég myndi segja að ég sé skorpubakari, en með því meina ég að ég tek skorpur þar sem ég baka mikið á tímabilum en svo getur liðið langur tími á milli. Ég er meira fyrir að elda, enda leyfir matseld meira frelsi til að slumpa og leika sér með hráefni, sem á betur við mig en nákvæmnin sem fylgir bakstri.“

Snúðakransinn er glæsilegur.

Snúðahringur með pistasíum varð úr

Á snúðakransinn sem þú bakaðir einhverja sögu? „Dóttir mín Gabríela á það til að fá löngun í eitthvað úr bakaríum sem hún elskaði en þau hafa hætt með. Jói Fel seldi svona pistasíukökur um tíma og fékk hún mikla löngun í slíka svo ég varð að taka til minna ráða og reyna að endurskapa þessa köku. Hér ákvað ég hins vegar að breyta henni og gera sænskan snúðahring úr henni til að gefa henni jólalegt yfirbragð. Við skulum segja að það hafi tekið þrjár góðar tilraunir að ná þessu öllu réttu og sem næst því sem það smakkaðist úr bakaríinu í denn.“

Aðspurð segist María ekki setja allt á hvolf í aðdraganda jólanna og undirbúningur sé því rólegri en áður. „Ekkert meira en gengur og gerist held ég, ég er löngu komin yfir það að fara yfir um á jólunum og þurfa að þrífa allt hátt og lágt eins og einu sinni var. Jólamánuðurinn einkennist oft af mikilli vinnu en þá er mikið að gera í bloggheiminum. Ég hef hins vegar verið með jólin svolítið á síðustu stundu undanfarin ár og verið að gera allt liggur við á Þorláksmessu svo í ár ætla ég að læra af því, vinna örlítið minna og undirbúa fram í tímann.

María segir að það sem sé langskemmtilegast við jólin sé að njóta samvista við fjölskylduna og borða góðan mat. „Einnig finnst mér gaman að horfa á börnin mín opna jólagjafirnar sínar og sjá undrunarsvipinn og gleðina á andlitum þeirra. Jólaljósin og kósíheitin ylja líka hjartanu.“

Hamborgarhryggur á aðfangadag

Heldur þú í jólahefðir í matargerð og bakstri sem hafa fylgt fjölskyldum ykkar? „Það er tvennt sem við bökum alltaf fyrir jólin eftir að ég kynntist Ragnari manninum mínum, en það eru engiferkökurnar frá móður hans heitinni og lakkrístoppar.

Svo er ég mjög fastheldin á jólamatinn aðallega barnanna vegna en þeirra vegna má litlu breyta, það er alltaf hamborgarhryggur og sykurgljáðar kartöflur og sykurpúðasalat á aðfangadag og hangikjöt með uppstúf og laufabrauð á jóladag en við hjónin erum bæði alin upp við þennan jólamat svo það var ansi heppilegt.“

Snúðahringurinn er girnilegur og örugglega nammi fyrir marga.

Pistasíu-snúðakrans

Snúðar

2,5 dl nýmjólk

15 g pressuger (er alltaf geymt í mjólkur- eða eggjakæli í verslunum)

400 g hveiti

60 g sykur

1 tsk. vanilludropar

1 tsk. kardimommudropar

½ tsk. fínt borðsalt

80 g smjör við stofuhita

Hrærið saman 2 msk. af soðnu vatni og 2 msk. af sykri til að pensla á snúðana áður en þeir fara inn í ofn.

½ dl flórsykur til að dreifa yfir snúða

Setjið hveiti og salt í hrærivélarskál og hrærið létt saman. Í minni skál setjið þá ylvolga mjólk, ger og sykur og látið standa í fimm mínútur, gott er að hræra gerið vel upp. Bætið þá vanillu- og kardimommudropum út í mjólkina og kveikið á hrærivélinni og hellið rólega út á hveitið. Meðan deigið hnoðast setjið þá smjörið smátt og smátt út á eins og í þremur til fjórum skömmtum og látið hnoðast þar til deigið hefur alveg hringað sig um krókinn. Breiðið þá stykki yfir skálina og látið hefast í 1 klst. á volgum stað.

Vinnsluaðferðin hjá Maríu.

Fylling

35 g pistasíuhnetur

35 g sykur

160 g Odense kransakökumarsípan

10 g hlynsíróp

2 msk. ananassafi úr ananasdós (má líka setja vatn í staðinn)

Klípa af grófu salti

Setjið sykur og pistasíuhnetur í blandara og malið í duft en ekki of lengi. Hrærið saman við marsípanið og setjið ananassafa, síróp og salt út á. Hrærið vel saman og geymið þar til deig hefur hefast.

Karamellubráð ofan á

1 poki Karamel Fudge frá Odense

2 msk. rjómi

Setjið saman í pott og hrærið stöðugt þar til hefur bráðnað og orðið að fallegri karamellubráð.

Svona útbýr María baksturinn.

Aðferð við að gera snúðana

Hitið ofninn á 200°C blástur. Fletjið deigið út í ferning á stærð við bökunarplötu, kannski örlítið minni. Smyrjið fyllingunni vel yfir allan ferninginn. Leggið svo deigið saman eins og ef þið væruð að loka bók nema langsum. Skerið svo þvert yfir deigið eins og tveggja cm lengjur með pitsuskera. Það ættu að nást tíu til tólf lengjur. Skerið svo hverja lengju næstum í sundur nema leyfið henni að hanga saman efst. Vefjið svo tveimur pörtunum utan um hvorn annan og rúllið upp í snúð, sjá mynd. Ef þið viljið gera krans er snúðunum raðað í hring klesst hverjum við annan, annars má líka gera bara staka snúða. Penslið næst með sykurvatninu og stingið í ofninn í 13-16 mín. Takið út og leyfið ögn að kólna en gott er að gera karamellubráðina á þessum tímapunkti. Sáldrið flórsykri gegnum sigti á snúðana og setjið síðast karamellubráðina yfir. Ef þið viljið er líka gott að setja örlítið gróft salt í restina þegar karamellan er komin á en passa að setja ekki of mikið.