Gunnlaugur Arnar byrjaði í bakstursnámi 2013 og útskrifaðist 2017. Í janúar 2018 flutti Gulli Arnar út til Kaupmannahafnar í konditornám og lauk því í janúar 2020. Í apríl 2020 stofnaði hann bakarí undir sínu nafni, Gulli Arnar, við Flatahraun í Hafnarfirði og hefur starfsemin vaxið og blómstrað dag frá degi.

Lærði að gera kökuna í Kaupmannahöfn

„Stærsti hluti dagsins hjá mér fer í það að baka en vinnudagarnir geta orðið langir. Ég baka þó lítið sem ekkert heima hjá mér eftir að ég byrjaði að vinna sem bakari, þó svo ég hafi gert mikið af því þegar ég var yngri,“ segir Gulli Arnar sem er iðinn við að koma með nýjungar í bakaríið sitt.

Við fengum Gulla Arnar til að deila með lesendum sinni uppáhalds jólaköku. „Þessi kaka er mjög jólaleg. Ég lærði að gera þessa köku á námsárunum mínum í Kaupmannahöfn, og hef aðeins aðlagað hana eftir mínu höfði. Ég notaði grunninn að þessari köku til dæmis á sveinsprófinu mínu úti með góðri útkomu.“

Afslöppuð og þægileg jól í forgrunni

Hvernig er jólaundirbúningnum háttað heima hjá þér og er mikið haft fyrir jólunum?

„Ég get ekki sagt það, fjölskyldan heldur lítið í fastar hefðir og eru jólin mjög afslöppuð og þægileg á mínu heimili. Ég hef engar sérstakar jólahefðir sjálfur. Eftir að ég byrjaði að starfa sem bakari hefur desember ávallt verið undirlagður vinnu en jólin er mikill álagstími í bakaríinu.

Þá gefst lítill tími til að stunda jólahefðir og mitt hlutverk er meira að gleðja aðra með fallegum jólakræsingum og bakkelsi fyrir jólin,“ segir Gulli Arnar og bætir jafnframt við að það sé mjög gefandi að gleðja aðra með bakstri sínum.

Andrúmsloftið það skemmtilegasta við jólin

Jólin er sá árstími sem Gulla Arnari finnst gleðilegur og jafnframt skemmtilegur. „Mér finnst andrúmsloftið það skemmtilegasta við jólin. Þegar maður finnur fyrir því að allir séu komnir í jólaskap og birtan frá jólaljósum lýsir upp skammdegið.“

Áttu þinn uppáhalds jólasvein?

„Eftir að jólasveinarnir fóru að svíkja mig og hætta að kíkja til mín í heimsókn þá duttu þeir úr uppáhaldi. Þegar ég var yngri var Kertasníkir ávallt í miklu uppáhaldi, einfaldlega vegna þess hann kom yfirleitt með bestu pakkana.“

Jólakakan að hætti Gulla Arnars.

Jólakaka með góðgæti að hætti Gulla Arnars

145 g Odense bagemarsipan

190 g púðursykur

Börkur af 3 stk. lífrænum appelsínum

Börkur af 2 stk. lífrænum sítrónum

170 g smjör

50 g hveiti

10 g malaður kanill

4 g brúnkökukrydd

2 g malað engifer

6 g lyftiduft

25 g pekanhnetur

35 g heilar heslihnetur

60 g heilar möndlur

180 g egg (ca. 3 stór egg)

Safi úr einni lífrænni appelsínu

Byrjið á því að hita ofninn í 160°C. Passið að öll hráefnin séu við stofuhita. Byrjið á því að hakka möndlurnar í grófa bita og rista þær og láta þær kólna. Hrærið saman í hrærivél með spaða marsipani, púðursykri og berkinum þar til allt er orðið samfellt. Bætið smjörinu í og hrærið saman þar til massinn er samfelldur. Passið að stoppa vélina og skafa smjörið úr spaðanum og hliðunum svo massinn blandist alveg saman. Bætið svo öllum þurrefnum og ristuðum hnetum saman við. Í lokin bætið við eggjunum, einu í einu. Gott er að skafa niður hliðarnar á milli þess sem eggjunum er bætt í. Þegar deigið er allt komið saman er það sett í baksturshring. Ég bakaði mína köku í formi sem er 18 cm í þvermál og 6 cm hátt. Mér þykir alltaf best að klippa smjörpappír í botninn og einnig smjörpappírs renning í hliðarnar á forminu. Ég bakaði þessa köku við 160°C gráður blástur í 45-50 mínútur. Athugið að ofnar eru mismunandi og hver og einn þekkir sinn ofn. Um leið og kakan kemur úr ofni pensla ég hana með safa úr einni lífrænni appelsínu. Best er að gera það um leið á meðan kakan er enn þá heit. Kælið kökuna í hringnum því hún er bökuð aftur.

Karamelliseraðar hnetur

60 g sykur

40 g hunang

45 g smjör

65 g rjómi

35 g hakkaðar pekanhnetur

35 g heslihnetuflögur

45 g möndluflögur

Hitið sykur, hunang, rjóma og smjör upp að 109 gráðum. Passið að gera það ekki við of háan hita því þá brennur sykurinn. Þegar karamellan er tilbúin er hnetunum bætt út í og hrært við við vægan hita þar til hneturnar eru allar hjúpaðar karamellu. Þegar kakan er orðin köld er blandan sett yfir kökuna og bökuð aftur við 180-190 gráður í um það bil 10 mínútur eða þar til hnetublandan hefur ristast. Hér er ástæðan fyrir smjörpappírnum í hliðarnar því karamellan festist annars í hliðunum og ekki hægt að ná kökunni úr. Kælið kökuna. Losið úr hringnum og setjið kökuna á jólalegan kökudisk og njótið. Gleðilega jólahátíð.