„Maður er alltaf að leita að einhverju nýju og skemmtilegu að gera og okkur fjölskyldunni finnst mjög gaman að borða pítsu, hvort sem við gerum deigið sjálf, kaupum tilbúið deig, pöntum heim eða grillum pítsu. Föstudagar eru pítsudagar hjá okkur. Ég sá svo einhvers staðar á netinu hvernig mætti gera jólalegar pítsur og fannst það hljóta að vera skemmtileg tilbreyting, svo við ákváðum að gera þannig síðasta föstudag,“ segir Kolbrún.

Fjölskyldan notaði piparkökuform til að móta karla og jólatré úr útrúlluðu pítsudeiginu. Mynd/aðsend

Einfalt að skera út

Að sögn Kolbrúnar var jólapítsugerðin nokkuð einföld í framkvæmd. „Við keyptum stærsta upprúllaða deigið, XXL, og rúlluðum því út á borðið. Við ákváðum að prófa fyrst með tilbúnu deigi því þetta var í fyrsta sinn sem við gerðum þetta. Svo notuðum við piparkökuform til að skera út piparkökukarla og jólatré. Það þarf að þrýsta formunum svolítið fast niður og nudda þannig að deigið losni frá. Þá var erfiðara að ná trjánum en körlunum úr formunum, en þetta hafðist allt og kom mjög vel út. Svo setur maður pítsusósu og ost og álegg á og bakar. Pepperóní er mjög vinsælt álegg á mínu heimili og þá tók ég nokkrar sneiðar saman og klippti í fjóra parta með skærum. Það er auðveldast að klippa það.“

Sósan er svo sett á, ostur og álegg og pítsurnar bakaðar í ofni við það sem stendur á pakkningunum.

Það voru allir himinlifandi með þetta föndur og svo kvöldmatinn. „Strákarnir voru með vin sinn í heimsókn og fékk hann að borða með okkur. Þetta verður sko pottþétt gert aftur fyrir þessi jól. Svo sá ég líka uppskrift þar sem maður tekur tvo þríhyrninga úr deigi og innbakar með pítsusósu, osti og áleggi á milli. Þetta blæs út og lítur út eins og tré. Þetta langar mig líka að prófa. Svo er líka hægt að búa til kanilsnúðatré úr pítsudeigi. Þá skerðu líka út tvo þríhyrninga, smyrð kanilsykri og smjöri á sitt hvoru megin og leggur saman. Svo skerðu í hliðarnar á trénu og snýrð upp á í samfastar kanilbrauðstangir. Það kemur líka mjög vel út. Það er svo margt skemmtilegt hægt að gera, og það þarf bara ímyndunaraflið og tímann til þess.“

Pítsurnar eru einstaklega girnilegar og skemmtilega jólalegar.

Dýrmætur tími

Jólin segir Kolbrún að séu alltaf sérstakur tími í sínum huga og hjá fjölskyldunni. „Sjálf er ég mikið jólabarn og hugsa alltaf til jólanna með hlýju og gleði en maðurinn minn er ekki eins mikið jólabarn. Þetta er eitthvað sem ég vil gefa börnunum mínum, að þau finni gleði og hlýju í kringum jólin. Við gerum því mikið af því að föndra og skreyta fyrir jólin. Það er ekki bara einn dagur sem fer í piparkökuskreytingar heldur skreytum við þær nánast öll kvöld í aðdraganda jólanna. Það er líka mikill metnaður í skreytingunum. Í fyrra datt okkur í hug að byrja nýja hefð fyrir jólin, að skreyta hurðina að svefnherbergjunum, eins og gert er í skólanum hjá strákunum mínum. Þá skreytir hver og einn bekkur hurðina að heimastofunni. Það varð ekkert úr þessu síðustu jól, en þetta verður klárlega næsta verkefni núna. Strákarnir, 8 og 12 ára, fá að skreyta sína hurð sjálfir, mamma og pabbi skreyta sína og svo hjálpumst við að að skreyta hjá þeirri yngstu sem er 2 ára. Svo verður þetta auðvitað keppni.

Sjálf var ég að vinna í banka en er núna heimavinnandi að klára uppsagnarfrest. Ég get ekki lýst því hvað það hefur verið dásamlegt og dýrmætt að geta varið tímanum með börnunum mínum, að vera heima hjá þeim og geta tekið þátt í jólaundirbúningnum.“ ■