„Í tilefni þess að Borgarbókasafnið Úlfarsárdal opnaði fullbúið hljóðver fyrr á árinu ætlar Borgarbókasafnið að efna til jólalagakeppni nú í aðdraganda jóla.

Óskað er eftir frumsömdum lögum á stafrænu formi. Lögin mega vera með eða án texta, á íslensku eða hverju öðru tungumáli.

Æskileg lagalengd er um það bil þrjár mínútur,“ kemur fram í tilkynningu frá Borgarbókasafninu. Lokafrestur til að skila inn lagi er fimmtudagurinn 17. Nóvember.

Lögin verða lögð fyrir dómnefnd en í henni eru þrír vel valdir góðkunningjar bókasafnsins.

Fyrst ber að nefna Valgeir Gestsson, sérfræðing tónlistardeildar Borgarbókasafnsins og söngvara og gítarleikara í hljómsveitunum Jan Mayen og Tálsýn. Svo er það Örvar Smárason, bókavörður hjá Borgarbókasafninu en hann er einnig rithöfundur, starfandi tónlistarmaður í hljómsveitunum FM Belfast og Múm og ríkjandi meistari í Popppunkti svo eitthvað sé nefnt.

Síðast en ekki síst sjálf jólastjarnan, Helga Möller, tónlistarkona og bókaormur, formaður dómnefndar.“

Allir sem vilja eru hvattir til að taka þátt og geta bókað tíma í hlóðverinu hér eða senda inn lag. Öll lög eru send inn sem WeTransfer-hlekkur á netfangið: ulfarsa@borgarbokasafn.is

„Sem stendur er hægt að bóka tíma í hljóðverinu á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum milli klukkan 15-17 og 17-19. Okkar dyggi hljóðmaður, Haraldur Ernir, er til staðar, ykkur til halds og trausts.“

Úrslitin verða kynnt fimmtudaginn 24. nóvember kl. 15:30 í salnum í Úlfarsárdal og mun Höfundur jólalags Borgarbókasafnsins 2022 bjóðast að fullvinna sitt lag með aðstoð hljóðmanns í hljóðveri Borgarbókasafnsins.

Nánari Upplýsingar má finna á heimasíðu Borgarbókasafnsins.