Jólahlaðborð eru tilvalin til þess að hrista upp í mannskapnum í vinnunni og hafa líklega aldrei verið jafn mikilvæg og einmitt nú. Hvað er enda betra til að auka samkennd og vináttu en góður matur, einn grár eða tveir og asnalegir leikir? Það er alltaf góð hugmynd að ráða veislustjóra fyrir kvöldið, hvort sem hann er aðkeyptur eða einhverjir sniðugir starfsmenn innan fyrirtækisins. Því þó svo matur og vín sé alltaf vel þegið þá er ekki síður mikilvægt að hafa smá gaman og kitla hláturtaugarnar aðeins saman.

Laumugjallarinn

Þessi leikur er þannig hannaður að hann fær að ganga yfir allt kvöldið og er hann tilvalinn til þess að brjóta ísinn. Leikurinn gengur hvort sem um er að ræða minni eða stærri hópa og hvort sem allir sitja við sama borð eða setið er við mörg borð. Leikurinn gengur út á það að gefa nokkrum í hópnum ákveðið hlutverk, sem þeir nýta sér nokkrum sinnum yfir kvöldið. Hlutverkin geta verið margs konar og er um að gera að leyfa hugmyndafluginu að ráða.

Hér eru nokkur dæmi:

Einar frændi minn: Viðkomandi reynir ávallt að toppa sögur borðfélaga sinna. Ef einhver segir til dæmis frá því hvað hann gerði um síðustu helgi, þá þarf viðkomandi að segja sögu af Einari frænda sínum (sem er auðvitað ekki til) og hvernig hann átti miklu skemmtilegri helgi.

Hver er staða ljóðsins? Einhver fær það hlutverk að spyrja á viðeigandi og óviðeigandi stundum hver sé staða þessa eða hins. Ef verið er að ræða pólitík, þá gæti viðkomandi til dæmis spurt hver sé staða menntaskólanna í íslensku samfélagi. Eða ef rætt er um bókmenntir gæti viðkomandi spurt hver sé staða ljóðsins.

Ungfrú Ísland punktur is: Þessi fær það hlutverk að koma með athugasemdir reglulega inn í samtöl með því að segja eitthvert ákveðið hugtak eða orð og enda á „punktur is“. Ef menn eru að ræða verð á bjór á Íslandi, þá gæti viðkomandi til dæmis sagt „okur punktur is“.

Sjálfusmiðurinn er sá sem tekur í sífellu sjálfur með vinnufélögunum. Til að gera meira úr þessu atriði er um að gera að senda ljósmyndirnar til veislustjórans og svo sýnir hann myndirnar eftir að leyndinni hefur verið aflétt. Einnig má birta þær á Facebook-síðu vinnustaðarins.

Meðan á viðburðinum stendur er svo ljóstrað upp að ákveðnir aðilar hafi fengið sérstakt hlutverk til þess að leika þetta kvöld og gestir eru hvattir til þess að giska á hverjir fengu hlutverk og hvers eðlis það hafi verið.

Verðlaun fyrir góða eiginleika

Ef veislustjórnin er í höndum starfsfólks fyrirtækisins er tilvalið að nýta sér þekkingu þeirra á vinnufélögum sínum. Þá velja veislustjórar eða -stjórnendur tvo til þrjá einstaklinga sem búa yfir litlum en eftirtektarverðum eiginleikum sem gera samstarfið skemmtilegt eða gott á einhvern hátt. Hér eru það litlu hlutirnir sem skipta mestu máli. Eitthvað sem fólk tekur eftir en talar ekki endilega um. Kannski er Siggi í móttökunni alltaf að spila góða tónlist í vinnunni og þá er um að gera að verðlauna hann fyrir góðan tónlistarsmekk. Helga mannauðsstjóri er kannski ótrúlega snögg og sniðug í tilsvörum og þá má endilega verðlauna hana fyrir hnyttni. Þá er Máni í upphringiverinu alltaf í fallegum sokkum og er tilvalið að verðlauna hann fyrir einstakt tískuvit. Sá sem gerir besta kaffið á líka þakkir skildar sem og sá sem kemur alltaf með girnilegasta nestið.