Charlotte býr hér ásamt föður sínum, Eliseo Cabiles, eiginmanni sínum, Kent Geonzon, og börnum þeirra, Andrea Cabiles, Clark Kent Geonzon og Amara Geonzon. Þann 1. október var Charlotte búin að setja upp jólatréð í stofunni í fullum skrúða og byrjuð að skreyta íbúðina með fallegu jólaskrauti. Það má þannig segja að fjölskyldan hafi, líkt og margir aðrir þetta furðulega ár, tekið ákveðið forskot á jólasæluna, með íslenskar jólahefðir í huga. En fyrir Charlotte má halda því fram að skreytingarnar hafi meira að segja hafist heldur seint. „Á Filippseyjum er það venja að byrja jólin alltaf snemma og við höfum haldið í þá hefð hér á Íslandi. Við erum vön að taka jólaskrautið fram í byrjun september, hvort heldur sem er jólatré, seríur eða annað skraut. Skrautið minnir okkur á anda jólanna, þar sem gjafmildi, gleði og fjölskylda er það sem skiptir allra mestu máli. Börnin elska að syngja jólalög og við gefum þeim sælgæti og gjafir. Svo setjum við jólaskrautið ekki niður fyrr en í febrúar,“ segir Charlotte, sem hefur starfað á leikskólanum Fögrubrekku á Seltjarnarnesi um árabil.

Charlotte segir að eitt árið hafi sig langað til þess að vera með ekta tré en það hafi verið nokkuð erfitt að komast í slíkt svo snemma fyrir jól. „Ég fór þá bara í Costco og keypti stórt gervijólatré handa okkur. Þetta er mjög vandað og fallegt tré og sómir sér vel í stofunni. Pabbi verður alltaf glaður þegar tréð er komið upp. Það minnir hann á jólin á Filippseyjum.“ Að mati Charlotte byrja Íslendingar heldur seint að halda upp á jólin svona almennt séð. „Þeir byrja of seint og svo eru hátíðirnar búnar allt of snemma. Jólin eru komin niður í geymslu snemma í janúar. Hvernig er hægt að njóta jólanna á bara þremur dögum? Jólin eru bara einu sinni á ári og það er um að gera að njóta þeirra lengi. Við elskum jólin á Filippseyjum og þetta er tími fjölskyldunnar til þess að vera saman, gefa, deila með sér.“

Jólamaturinn á miðnætti

Fjölskylda Charlotte er kaþólsk og halda þau jólahátíðina sjálfa á nokkuð svipaðan hátt og venja þykir á Íslandi. Aðfangadagur, jóladagur og annar í jólum.

Á Filippseyjum er aukinheldur venja að byrja á að halda daglega til kirkju níu dögum fyrir aðfangadag og þegar komið er heim úr níundu kirkjuferðinni, þann 24. desember klukkan 11 um kvöldið, segir Charlotte það vera hefð í fjölskyldunni að þá megi óska sér. Þessi hefð nefnist Simbangabe upp á filippeysku og byrjar þann 16. desember. „Svo borðum við saman jólamáltíðina á miðnætti 24.–25. desember. Hér á Íslandi borðum við klukkan 6 eins og venja er hér á landi. Jólamáltíðin á Íslandi samanstendur af hamborgarhrygg, humar og vorrúllum, því krakkarnir elska vorrúllur.“

Jólatréð keypti Charlotte í Costco eftir að hafa gefist upp á að finna ekta jólatré til sölu í september.
Ernir

Tími fjölskyldunnar

Móðir Charlotte býr á Filippseyjum ásamt systur Charlotte og frændsystkinum. „Við ætluðum að fá mömmu til okkar um jólin frá Filippseyjum, en vegna COVID-19 faraldursins var það því miður ekki hægt í ár.“ Bróðir Charlotte er svo búsettur í Bandaríkjunum og því er fjölskyldan nokkuð dreifð. „Í kringum jólahátíðirnar reynum við að hittast á netspjalli og óska hvert öðru gleðilegra jóla og tala aðeins saman. Það er mikilvægt að rækta fjölskylduböndin, sérstaklega um jólin.“

Charlotte minnist jólanna sem hún átti á Filippseyjum sem barn. „Þegar ég var lítil á Filippseyjum áttum við ekki mikið af peningum og jólaskrautið bjuggum við allt til sjálf, sama með jólatréð og skreytingarnar á það, við bjuggum það til sjálf. Hér á Íslandi kenni ég börnunum mínum að við erum heppin að hafa það gott. Ég kenni þeim líka mikilvægi þess að gefa með sér og deila. Og svo er mér í mun að þau læri hvað fjölskyldan er mikilvægur þáttur í lífinu.“ Charlotte var eitt sinn spurð af samstarfsmanni hvers vegna hún væri að senda háar fjárhæðir heim til Filippseyja fyrir jólin. „Móðir mín og systir búa báðar á Filippseyjum og um jólin þá sendum við alltaf peninga til þess að hjálpa þeim. Fjölskyldan okkar á Filippseyjum hefur ekki mikið á milli handanna og okkur þykir gott að geta hjálpað til að gera jólin gleðilegri heima fyrir.“