Fyrir hver jól keppast brugghús víða um heim við að framleiða bragðgóða, áhugaverða og stundum stórskrítna jólabjóra. Flest brugghús halda sig við að bragðbæta bjórinn með jólalegu bragði og kryddi eins og mandarínu, eplum, allrahanda, kardimommum, kanil, stjörnuanís eða múskati, á meðan önnur ganga mun lengra en góðu hófi gegnir og skella til dæmis súrum hvalseistum í bruggið eða jafnvel grænum baunum og rauðkáli.

Jólabjór er ekki einn sérstakur bruggstíll, heldur getur jólabjór verið hvernig bjór sem er. Hann getur verið boch, súrbjór, stout, porter, lager, pale-ale, IPA, eða hvað sem er annað. Flestir eru þó sammála um að jólabjór þurfi að minna á jólin á einhvern hátt eða einskorðast að einhverju leyti við jólatímann. En hvaðan kemur eiginlega þessi jólabjórahefð?

Vetrarhátíð Satúrnusar

Jólabjórhefðin á rætur sínar að rekja 2.000 ár aftur í tímann, þegar menn brugguðu bjór fyrir Satúrnusarhátíðina í Róm. Hátíðin hófst 17. desember og var haldin til heiðurs Satúrnusi að lokinni vetrarsáningu. Jólabjórhefðin hélt áfram gegnum aldirnar og á miðöldum brugguðu munkar bjór sérstaklega fyrir jólahátíðina.

Godt Tub’år

Jólabjórhefðin er misveigamikil á milli landa en hún hefur heldur betur skipað sinn sess í dönsku skemmtanalífi. Þar í landi er J-dagurinn haldinn hátíðlegur hvert ár, fyrstu helgina í nóvember. Hefðin hefur haldist allt frá árinu 1981. Þá setur Tuborg-jólabjórinn í sölu með tilheyrandi bláklæddum jólasveinum, fölskum jólalagasöng og jólabjórsötri. Í dag geta Danir valið á milli hundraða ólíkra jólabjórtegunda frá hinum ýmsu brugghúsum, innlendum sem erlendum.

Íslendingar vilja síður vera eftirbátur Dana og hafa undanfarin ár haldið J-daginn hátíðlegan þegar Jólatúborginn kemur á öldurhús borgarinnar. Í fyrra þurfti hins vegar að aflýsa hátíðinni í fyrsta sinn vegna Covid-19 faraldursins.

Jólabjórinn á Íslandi

Jólabjórhefðin á Íslandi verður sífellt veigameiri með hverju árinu. Samkvæmt elstu fréttinni á heimasíðu Vínbúðanna sem snýr að jólabjór, frá árinu 2003, kemur fram að heilar átta tegundir af jólabjór hafi verið í sölu það árið. Sala á jólabjór hófst í Vínbúðunum fimmtudaginn 4. nóvember og var þá von á 130 ólíkum jólabjórtegundum í rekka Vínbúðanna. Hefðin hefur því tekið miklum stakkaskiptum á stuttum tíma. Íslenskum brugghúsum fjölgar sífellt og eru þau dugleg að taka þátt í jólabjórhefðinni og blanda í áhugaverða bjóra með jólalegum innihaldsefnum og aðferðum.