Elenora Rós hefur mikla og einlæga ástríðu fyrir bakstri. „Ég hef elskað að baka frá því að ég man eftir mér og hef fengið að blómstra á þessu sviði,“ segir Elenora Rós og er afar þakklát fyrir þær viðtökur sem hún hefur fengið.

„Mamma bakaði ávallt mikið í kringum jólin þegar ég var barn svo ég þekki ekki annað en að baka mikið fyrir jólin. Það voru alltaf margar sortir bakaðar þar á meðal sörur, smákökur, mömmukökur, lakkrístoppar, piparkökur, ávallt gerður heimatilbúinn ís og svo var stundum gert laufabrauð.

Svo var náttúrulega alltaf nóg að gera í bakaríinu þar sem þar eru nokkrar sortir af smákökum bakaðar og yfirleitt einhvað nýtt hátíðlegt bakkelsi bætt í búðarborðið yfir jólin sem er svo ótrúlega skemmtilegt. Um jólin er brjálað að gera í bakaríunum og skemmtileg stemning sem fylgir því. Bakaríin búa til lagtertur, smákökur, rúllutertur og sum bakarí gera alls kyns nýjungar eins og ný vínarbrauð eða nýja snúða. Það er því nóg að baka um jólin og þegar ég hugsa um jólin hugsa ég alltaf fyrst um bakstur, samveru, seríurnar og huggulegu stemninguna sem myndast.“

Allar jólauppskriftirnar eiga sér sögu

Elenora Rós átti erfitt með að gera upp á milli nokkurra af uppáhalds jólauppskriftunum sínum svo hún bakaði allt það sem henni þykir best og ljóstraði upp sögunum bak við hverja uppskrift.

„Ég elska jólastafi og það var uppáhalds nammið mitt sem krakki. Ár hvert hef ég leikið mér að því að þróa að minnsta kosti eina uppskrift sem inniheldur svona jólastaf. Þessi er mín allra uppáhalds, hún er stökk að utan og dúnmjúk að innan og alveg svakalega góð. Þetta er uppskrift sem heppnaðist strax í fyrstu tilraun og er mjög auðveld líka,“ segir Elenora Rós um jólasúkkulaðibitakökurnar sínar.

„Jólakakan mín á sér á sér mjög skemmtilega sögu. Ég fór eitt sinn að hitta bestu vinkonu mína og kærasta hennar. Þau eru bæði frábærir og skemmtilegir persónuleikar og það er í alvörunni svo skemmtilegt að gefa þeim bakkelsi og fá hugmyndir frá þeim. Kærasti hennar elskar appelsínusúkkulaði.

Mér finnst appelsínusúkkulaði einkenna jólin mjög sterklega og einnig Baileys því það er oft boðið upp á Baileys á jólunum heima hjá mér. Mér fannst því frábær hugmynd að blanda þessu saman. Ég ákvað því að slá til og ég get svo sannarlega staðfest að þetta er besta fylling í köku sem ég hef á ævinni gert og ég er í skýjunum með útkomuna.“

Fallegir og bragðgóðir piparkökusnúðar

Svo eru það piparkökusnúðarnir fallegu sem fanga augað. „Ég sá þessa fyrst í Brauð & Co þegar ég var að vinna þar. Þeir eru gerðir árlega þar og jólin hjá mér byrja eiginlega ekki fyrr en þessir hafa verið gerðir. Þeir eru svo góðir og jólalegir og hlýja manni svo um hjartarætur. Þeir eru orðnir að hefð hjá mér og mér finnst einstaklega gaman að búa þá til. Þetta er mín útgáfa af þessum snúðum en hér er ég á nota uppáhalds snúðadeigið mitt sem ég bjó til fyrir bókina mína. Þessir eru ekki bara fallegir heldur alveg ótrúlega bragðgóðir.“

Tilhugsunin um jólin yljar

Mikið er haft fyrir jólunum á heimili Elenoru Rósar og allir taka þátt í að skreyta og undirbúa.

„Mamma á marga, marga, kassa af jólaskreytingum og þær fara strax upp í byrjun desember. Húsið verður eins og jólahús og er skreytt hátt og lágt. Við höldum í alls kyns hefðir eins og að amma býr ávallt til frómasinn sinn, ég og bróðir minn verðum alltaf að horfa á A Christmas Carol og fleira. Jólin eru stórhátíð heima hjá mér og það yljar mér fátt meira um hjartaræturnar eins og tilhugsunin um jólin.“

Elskar að mæta í vinnuna á aðfangadagsmorgun

Hvað er það sem þér þykir skemmtilegast við jólin?

„Það hefur breyst verulega í gegnum árin. Í bernsku fannst mér gaman að fá að þjóta um bæinn með jólakort, fá smákökur og heitt kakó á meðan ég litaði í jólalitabókina mína. Hefðin að opna ávallt einn pakka strax eftir matinn á aðfangdagskvöld á meðan mamma og pabbi vöskuðu upp var í miklu uppáhaldi.

Ég elskaði allt umstangið í skólanum, að skreyta stofurnar hátt og lágt og eyða fleiri fleiri dögum í að búa til jólakort og mæta svo á litlu jólin. Í dag elska ég mest í heimi að mæta í vinnuna á aðfangadagsmorgun. Það eru allir svo fullir tilhlökkunar og allir brosandi út að eyrum að óska hver öðrum gleðilegra jóla. Ég elska að rölta miðbæinn og dáðst að seríunum og ljósunum á meðan ég fæ mér heitt kakó. Mér finnst svo gaman að hitta fólkið mitt, knúsa það, gleðja það og vera með þeim á þessum dásamlegu tímum.

Ég elska jólamatinn alveg ótrúlega mikið og það má alls ekki breyta honum. Ég er mikið matargat og finnst jólamaturinn hennar mömmu besti matur í heimi. Það skemmtilegasta við jólin er í rauninni bara hvað allir verða glaðir og umhyggjusamir, mér finnst það fallegt.“

Smákökur og jólasnúðar er meðal þess sem boðið er upp á hér.

Súkkulaðibitakökurnar hennar Elenoru Rósar

Uppáhalds

56 g smjör við stofuhita

1 egg

200 g hveiti

100 g sykur

70 g púðursykur

6 g vanilla

2 g sjávarsalt

3 g matarsódi

100 g hvítir súkkkulaðidropar

100 g dökkt súkkulaði

5 jólastafir eða einn poki af bismarkbrjóstsykri

 1. Hrærið saman smjör, sykur og púðursykur þar til blandan er orðin létt og ljós.
 2. Bætið vanillunni saman við og hrærið þar til hún er komin alveg saman við.
 3. Skafið niður hliðarnar og bætið svo egginu saman við og hrærið þar til eggið er komið saman við blönduna og stoppið þá strax.
 4. Í annarri skál hrærið þið saman öllum blautefnunum og þurrefnunum sem eftir eru.
 5. Blandið saman sykurblöndunni og þurrefna- og blautefnablöndunni og hrærið saman þar til þetta er komið alveg saman, passið að ofvinna deigið ekki hér.
 6. Bætið súkkulaðinu og jólastöfunum saman við deigið.
 7. Setjið plastfilmu yfir skálina og kælið deigið í 30-60 mínútur.
 8. Forhitið ofninn í 170°C blástur.
 9. Rúllið deiginu í lengju og skerið hana í 12 jafnstóra bita. Rúllið bitunum í kúlur og setjið kúlurnar á pappírsklædda bökunarplötu.
 10. Bakið í 10-12 mínútur eða þar til þær eru gullinbrúnar. Passið að ofbaka þær ekki, þær líta kannski ekki út fyrir að vera tilbúnar en eru það líklegast.

Jólaleg súkkulaðikaka

260 g hveiti

400 g sykur

130 g kakó

2 egg

230 ml heitt vatn

230 ml mjólk

115 ml olía

8 g lyftiduft

8 g matarsódi

 1. Forhitið ofninn á 170°C á blæstri.
 2. Blandið öllum þurrefnum saman.
 3. Bætið blautefnunum saman við og hrærið í 2 mínútur.
 4. Setjið deigið í tvö vel smurð form og bakið í u.þ.b 35-40 mínútur.
 5. Leyfið kökunni að kólna vel þegar hún kemur úr ofninum.

Appelsínusúkkulaði ganash

300 g appelsínusúkkulaði

300 ml rjómi

 1. Saxið súkkulaðið og setjið í skál.
 2. Setjið rjómann í pott og látið hann koma upp að suðu og hellið honum þá beint yfir súkkulaðið.
 3. Leyfið þessu að standa í um það bil 2-3 mínútur og hrærið svo saman þangað til þetta er allt komið saman og leyfið þessu að kólna og stífna á meðan þið gerið restina.

Baileys smjörkrem:

500 g flórsykur

500 g smjör

150 g kakó

200 ml Baileys

 1. Þeytið smjörið þar til létt og ljóst.
 2. Bætið restinni saman við og haldið áfram að þeyta í um 8-12 mínútur eða þar til kremið verður silkimjúkt og létt.

Setjið einn botn á kökudisk og setjið Baileyskrem á botninn og ganash ofan á kremið.

Endurtakið þetta skref og skreytið síðan kökuna eins og þið viljið.

Piparkökusnúðar að hætti Elenóru Rósar

Deig

375 g kökuhveiti

375 sterkt hveiti

5 g salt

60 g sykur

60 g púðursykur

15 g þurrger

120 g mjúkt smjör

1 egg

160 ml mjólk

160 ml vatn

2-3 eggjarauður

Piparkökufylling

100 g marsipan

100 g smjör

100 g púðursykur

15 g kanill

15 g negull

15 g engiferkrydd

200 g piparkökudeig

 1. Setjið allt nema smjör í hrærivélarskál og hnoðið í 4 mínútur.
 2. Eftir 4 mínútur er smjörinu bætt saman við og deigið hnoðað áfram þar til það losnar frá hliðum skálarinnar, verður slétt, glansandi og teygjanlegt.
 3. Skálin er plastfilmuð og deigið fær að hefast í skálinni þar til það hefur tvöfaldast.
 4. Á meðan er fyllingin búin til. Hrærið saman marsipan og mjúkt smjör þar til það er komið vel saman. Varist að hræra of mikið því annars lekur fyllingin úr þegar hún er bökuð.
 5. Bætið púðursykri, negul, engiferkryddi og kanil saman við og hærið þar til smjörið er komið vel saman við og engir marsipankögglar eru eftir í fyllingunni.
 6. Þegar deigið hefur tvöfaldast er það flatt út með kökukefli og fyllingin smurð á deigið.
 7. Síðan er deigið rúllað þétt upp og skorið í um 100 g snúða.
 8. Raðið snúðunum á pappírsklædda bökunarplötu og leyfið þeim að hefast í 1-2 klukkutíma eða þar til þeir hafa tvöfaldast í stærð.
 9. Hitið ofninn í 220°C.
 10. Rúllið út piparkökudeigið og skerið það út með stjörnuformi.
 11. Penslið með eggjarauðum, leggið piparkökudeigið ofan á. snúðunum, sigtið flórsykur yfir og bakið í 8-10 mínútur.