Álfgrímur Aðalsteinsson, listamaður og áhrifavaldur á TikTok, hefur sent frá sér nýtt frumsamið jólalag í annað sinn á þessu misseri. Lagið heitir Hátíð í hjarta og er hugljúf ballaða. Hann svarar nokkrum jólalegum spurningum af þessu tilefni og minnir á að jólin þurfa ekki að vera fullkomin. Álfgrímur syngur lagið og fær til liðs við sig fjölda hljóðfæraleikara. Hann samdi lagið við texta föður síns Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar.
Álfgrímur, eru fleiri jólalög á leiðinni?
„Ekki árinu sem er að líða því miður en með þessu áframhaldi verður maður kannski kominn með heila jólaplötu eftir einhvern tíma.“
Ertu mikið jólabarn?
„Ég var mikið jólabarn. Sérstaklega þegar ég var á þeim aldri þar sem hver einasti maður sem vissi af tilvist manns gaf manni jólagjöf. Núna er ég í þessu skrítna millibilsástandi þar sem ég er ekki lengur barn og það eru engin börn í nánustu fjölskyldunni, en þá er um að gera að skapa nýjar hefðir!“
Hvað er það hátíðlegasta á jólum?
„Sparistellið sem má ekki snerta nema um hátíðirnar.“
Hver er besti jólamaturinn?
„Klárlega hangikjötið! Það er eini alvöru jólamaturinn.“
Hvaða jólasiði heldur þú fast í?
„Að hlusta á jólaplötu Borgardætra á repeat og að drekka heitt súkkulaði að morgni jóladags.“
Hvað er efst á jólaóskalistanum?
„Um daginn datt mér í hug að DNA-próf hjá Íslenskri erfðagreiningu gæti verið frumleg og skemmtileg jólagjöf. Annars eru kerti og spil auðvitað alltaf klassík.“
Hvað gefur þú mörgum jólagjöf?
„Ég gef fjölskyldunni minni gjafir og mínum nánustu vinum. Kannski í kringum tíu manns.“
Hvað þurfa allir að hafa í huga á aðventunni?
„Að jólin geta verið jafn erfiður tími fyrir marga eins og hann getur verið góður fyrir aðra. Jólin þurfa líka ekki að vera fullkomin.“