„Hnotubrjóturinn kemur öllum í jólaskap. Það er einstaklega aðgengilegt verk til að kynna fyrir börnum og dansunnendum. Dansararnir eru á mismunandi aldri og með aðalhlutverk fara nemendur sem stunda nám við framhaldsbraut í listdansi og eiga framtíðina fyrir sér sem atvinnumenn í faginu,“ segir Hrafnhildur Einarsdóttir, skólastjóri Klassíska listdansskólans.

Dansverkið er unnið eftir sögu E.T.A Hoffmann, en upprunalegir danshöfundar voru Marius Petipa og Lev Ivanov. Tónlistin er eftir rússneska tónskáldið Pyotr Ilyich Tchaikovsky.

Dansandi snjókorn, nammistafir og sykurplómur

Leikstjóri Hnotubrjótsins er Ernesto Camilo Aldazabal Valdes. Hann segir Hnotubrjótinn vera skemmtilegt ævintýri fullt af töfrum.

„Sagan hefst í jólaboði þar sem Drosselmeyer frændi, göldróttur úra- og leikfangasmiður, kemur í heimsókn. Hann gefur guðdóttur sinni, Klöru, hnotubrjót sem er í álögum en lifnar við eftir að Klara sigrar músakónginn í bardaga. Klara og prinsinn fara inn í töfraheim þar sem snjókorn og englar dansa. Næst fara þau í konungsríki úr sykri, þar sem sykurplómu konungsfólkið tekur á móti þeim og mikil veisla er haldin í tilefni komu þeirra. Þar dansar ýmis konar góðgæti, eins og sykurplómur, súkkulaði, karamella, bollakökur, nammistafir, marsípan, piparkökukrakkar og að lokum blómaprinsessur,“ greinir Camilo frá, fullur tilhlökkunar með sínum framúrskarandi hæfileikaríku dönsurum.

Klassískur ballet er með fegursta listformi í heimi og í dag gefst fágætt tækifæri til að sjá jólaverkið heimsfræga, Hnotubrjótinn.

Kemur öllum í jólaskap

Það er Klassíski listdansskólinn og Óskandi sem taka höndum saman og setja upp sína eigin útgáfu af Hnotubrjótnum. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari og blandað er saman nútímalistdansi og klassískum ballett.

„Þetta er í annað sinn sem Dansgarðurinn setur upp Hnotubrjótinn en hið fyrra var síðastliðið ár þegar samkomutakmarkanir voru miklar og útkoman varð dansmynd. Við erum þakkát fyrir að fá að sýna afrakstur haustsins á stóra sviði Borgarleikhússins að þessu sinni og hlökkum til að deila með áhorfendum þessari undurfallegu sýningu sem kemur öllum í hátíðarskap,“ segir Ellen Harpa Kristinsdóttir, aðstoðarskólastjóri Klassíska listdansskólans.

Þess má geta að Dansgarðurinn samanstendur af Óskanda, Klassíska listdansskólanum, Dansi fyrir alla og Forward Youth Company.

„Markmið Dansgarðsins er að bjóða upp á faglega og fjölbreytta danskennslu í klassískum ballett, nútíma- og samtímadansi og skapandi dansi. Einnig að gera danskennslu og viðburði aðgengilega fyrir börn og ungt fólk, ásamt því að efla umræðu um sviðslistir á milli ungra áhorfenda og listamanna, sameina og styðja listamenn sem vinna með dans- og sviðslistir fyrir ungt fólk og alla áhorfendur, og vinna með öðrum stofnunum til að svara betur samfélagsþörfum á sviði dans- og sviðslistar,“ segir Guðrún Óskarsdóttir, skólastjóri Óskanda.

Tvær sýningar verða á Hnotubrjótnum í Borgarleikhúsinu í dag, þriðjudaginn 30. nóvember; klukkan 16.30 og 19.30. Miðasala á tix.is