Það var eiginlega á degi jarðar fyrir tveimur árum sem ég fékk áhuga á að mála jöklana og hinar uggvænlegu breytingar á þeim. Mér lætur betur að mála en skrifa og er ekki mikið fyrir að predika á torgum,“ segir Þuríður Sigurðardóttir þegar ég heimsæki hana á vinnustofuna og skoða nýjustu myndir hennar, sem nú eru komnar á veggi Hannesarholts við Grundarstíg.

Þuríður er uppalin í Laugarnesinu og þar blasti Snæfellsjökull við svo að eðlilega er hann henni hugleikinn. En hún fer víðar og greina má bæði Eyjafjallajökul og Öræfajökul á myndunum sem allar eru unnar á málverk sem hún hafði gert áður. „Það er í anda nýs tíma að draga úr sóun og nýta strigann aftur,“ segir hún. „Jökullinn er gegnsær í öllum verkunum og það glittir í undirlagið, þar sem hann er að leka í sundur. Það er táknrænt. Að vissu leyti er erfitt að mála yfir verk sem ég hef áður lagt sál mína í, en öll þurfum við að leggja eitthvað á okkur fyrir umhverfið.“

Fram að þessu kveðst Þuríður hafa nostrað mjög við málverk sín en nú ráði hún ekki öllu ferlinu. „Ég sprauta terpentínu á litinn og stjórna engu um hvernig hann rennur og hvert. Við ráðum líka illa við jöklana en rammarnir utan um myndirnar túlka von mína um að okkur takist að hefta bráðnunina og koma böndum á hana. Maður vinnur alltaf út frá tilfinningu þegar maður málar.“

Allt frá því að Þuríður byrjaði í myndlist kveðst hún hafa sótt í það smæsta. „Í hestamyndum fer ég alveg inn í feld hrossanna, finn mynstur og mála hárin með svo pínulitlum penslum að það jaðrar við þráhyggju,“ segir hún og bendir á slíkar myndir á kaffistofunni. Á veggnum á móti blasir við lyng og holtablóm. „Eftir hestamyndirnar kom lággróðurinn og hraunið, lífsvilji hins smáa í náttúrunni. Svo hef ég alltaf verið heilluð af mýrarrauða og fyrir nokkrum árum málaði ég mýrar út í eitt. Nú eru málverkin það eina sem vitnar um sumar þeirra. Þegar ég las að það væru ekki eftir nema 12% af votlendinu á Suðurlandi vöknuðu áhyggjur af því en sem betur fer hefur fólk tekið við sér og vonandi tekst líka að snúa þróun jöklanna við.

Nýlega hélt Þuríður söngtónleika, enda bæði með tónlist og myndlist í genabankanum. Hvort finnst henni skemmtilegra að syngja eða mála? „Stundum segi ég að með söngnum hafi ég svæft myndlistina, því þörfin fyrir þessar listgreinar er á líkum stað í heilanum. En svo langaði mig að syngja aftur og þó ég uni mér ein með penslana saknaði ég félagsskapar tónlistarfólks og gleði sem því fylgir.“