Fólkið á bak við Volaða land, nýjustu kvikmynd Hlyns Pálmasonar, gerði góða ferð á kvikmyndahátíðina í Cannes þar sem myndin fékk glimrandi viðtökur og gangrýnendur heimspressunnar jusu hana lofi. Þá sá hundurinn Jökull, með frammistöðu sinni í myndinni, til þess að þau fóru ekki tómhent heim.

Jökull gerði sér nefnilega lítið fyrir og hlaut dómnefndarverðlaunin, Grand Jury Prize, í keppni sem kennd er við The Palm Dog Award.

Nafn verðlaunanna er vitaskuld tilbrigði við Gullpálmann, æðstu viðkenningu hátíðarinnar og ekki þurfti að skrá Jökul sérstaklega til leiks þar sem dómnefndin horfir einfaldlega á allar myndir hátíðarmyndirnar, teiknimyndir sem leiknar, þar sem hundar koma við sögu og veitir síðan Palm Dog-verðlaunin, við hátíðlega athöfn, þeim hundi sem þykir hafa staðið sig best.

Þetta var í 21. skipti sem Hundapálminn var veittur og til þess að setja þetta afrek Jökuls í samhengi má benda á að Tilda Swinton og Quentin Tarantino hafa tekið við þessum verðlaunum en hundar úr Tarantino hafa tvisvar hlotið Pam Dog.

Volaða land fékk mikla og jákvæða athygli í Cannes þar sem Hundapálmi fjárhudsins Jökuls var rúsínan í pylsuendanum.
Mynd/Aðsend

Svört púðla úr Inglourious Basterds vann til verðlaunanna 2009 og 2019 var Pit Bull tíkin Sayuri verðlaunuð fyrir túlkun sína á Brandy, hundi Brads Pitt í Once Upon a Time in Hollywood.

Jökull átti eðli málsins samkvæmt ekki heimangengt þannig að Anton Máni Svansson og Katrin Pors, framleiðendur myndarinnar, veittu verðlaununum viðtöku fyrir hönd Jökuls, óvæntustu stjörnunnar í Volaða land.

„Þau finna eins líka hunda og þau geta til að koma upp á svið með sigurmyndunum. Það var nokkuð erfitt í okkar tilfelli með okkar íslenska fjárhund,“ segir Anton Máni og getur ekki varist brosi enda ekki á hverjum degi sem íslenskur kvikmyndaframleiðandi kemur heim með verðlaun frá Cannesjum.

Staðgenglar verðlaunahundanna voru með á pallinum.