Ástríða Jóa er bakstur og eldamennska og í eldhúsinu líður honum best. Þessa dagana stendur hann í ströngu og er að undirbúa opnun á nýjum matsölustað þar sem ítalskur matur verður í forgrunni. „Ég hef ekki gert neitt annað frá því ég man eftir mér en að baka og elda. Nú fæ ég að spreyta mig á að elda og baka á sama staðnum, sem er eins og að láta drauminn rætast,“ segir Jói.

„Þetta verður matsölustaður með ítölsku ívafi, ítalskur matur eins og ég sé hann fyrir mér. Ekki fullkominn ítalskur staður enda eru þeir nær eingöngu til á Ítalíu. Það verður bakarí á staðnum þar sem við munum laga pítsudeigið úr 20 ára gömlum súr. Ekkert ger eða aukaefni verða sett í deigið, sem ég held að sé einsdæmi á Íslandi. Svo mun ég baka súrdeigsbrauð og vera með samlokur með ítölsku áleggi og að sjálfsögðu allar mínar fínu,góðu, flottu kökur. Þannig að það má segja að þetta verði léttur og fjölbreytilegur veitingastaður með kaffihúsi á daginn.“

Ertu til í að segja okkur frá áherslum þínum á nýja staðnum?

„Eins og ég hef sagt þá verður maturinn í ítölskum anda. Pastað lagað og pítsudeigið lagað á staðnum, samlokurnar og allar sósur. Kökurnar verða alls konar og alltaf eitthvað nýtt í gangi. Mjög reglulega verð ég með nýja rétti, ávallt eitthvað nýtt og spennandi þegar þú mætir næst. Svo er bara spurning hvort fólki líki við það sem boðið verður upp á,“ segir Jói og brosir.

Hvaðan fékkstu innblásturinn til að opna þennan stað?

„Ég hef farið svo oft til Ítalíu og gert nokkra sjónvarpsþætti um ferðir mínar, þannig að það lá ljóst fyrir að ef ég myndi opna veitingastað, hvað ég myndi bjóða upp á. Heima hjá mér elda ég langmest ítalskan mat, þannig að það kom ekkert annað til greina. Uppskriftirnar á staðnum eru bara mínar uppáhalds, sem ég hef verið að elda heima hjá mér í gegnum árin. Þannig að það var ekki flókið að gera matseðilinn.

Pítsa með Felino-salami frá Ítalíu. „Special“ réttur hjá Jóa.

Í Felino er besta salami á Ítalíu

Ertu til í að svipta hulunni af einhverjum nýjungum sem þú munt bjóða upp á?

„Staðurinn mun heita Felino og það má túlka það á marga vegu ef menn vilja. Það er lítill bær á Ítalíu sem heitir Felino og er ekki langt frá Parma. Í þessum litla bæ er búin til ein besta salami á Ítalíu sem heitir einmitt Felino. Ég flyt sjálfur inn salami og ég hef prufað hana bæði eina sér og á pítsu. Ég held svei mér þá að þetta hafi verið ein sú allra besta pítsa sem ég hef smakkað. Þannig að hún verður á matseðlinum hjá mér og þá geta allir notið þess að smakka þessu yndislegu Felino-pítsu, eina sinnar tegundar hér á landi.“

Jói segir að stefnt sé að því að opna staðinn fljótlega. „Það hafa verið miklar seinkanir út af Covid. Allar vélar og tæki komu einum til tveimur mánuðum of seint og allt tekur þetta sinn tíma.“

Spaghetti með risarækjum toppað með hvítvínsrjómasósu

1 skalottlaukur

4 hvítlauksgeirar

1 dl hvítvín

½ l rjómi

50 g rifinn parmesanostur

Salt og pipar eftir smekk

½ kg risarækjur (afþíddar)

Spaghetti eða tagliatelle

Basilíka og parmesan eftir smekk

Byrjið á því að léttsvissa lauk og hvítlauk létt, setjið rækjur saman við og létt steikið. Bætið síðan hvítvíni á pönnuna og sjóðið niður um helming. Hellið síðan rjómanum saman við ásamt rifnum parmesan, kryddið til með salti og pipar. Loks er pastað soðið og sett saman við sósuna. Setjið á disk, stráið parmesan og basilíku yfir eftir smekk.