Bandaríski leikarinn John Travolta þakkaði fylgjendum sínum fyrir stuðninginn mánuðina eftir andlát eiginkonu hans, Kelly Preston, í hjartnæmri færslu á Instagram um helgina.
„Mig langaði að nýta þessa stund til að þakka ykkur öllum sem einum fyrir að styðja mig á svo ótrúlegan hátt á þessu ári,“ sagði Travolta í myndbandi sem hann birti á Instagram. „Gleðilega þakkargjörðarhátíð og eilífa ást.“
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem leikarinn minnist eiginkonu sinnar á samfélagsmiðlum en hann hefur iðulega minnst á hversu sárt hann sakni hennar.
Preston lést síðastliðinn júlí eftir tveggja ára baráttu við brjóstakrabbamein. Hún kaus að fara leynt með veikindi sín og vissi almenningur ekki af krabbameininu fyrr en hún lést.
Hjónin höfðu verið gift í yfir 28 ár og áttu saman þrjú börn, þau Jett, Ellu og Benjamin. Jett Travolta lést árið 2009, þá einungis 16 ára gamall, þegar hann fékk flog í fríi fjölskyldunnar á Bahamaeyjum.
