Tón­listar­maðurinn John Legend kom svo sannar­lega til dyranna eins og hann er klæddur í nýjasta hlað­varps­þætti Dax Shepard og Monicu Padman, Armchair Expert. Söngvarinn vin­sæli opnaði sig um langa sögu fram­hjá­halds og hvernig eigin­kona hans Chris­sy Teigen leiddi hann á beinu brautina.

„Ég á mér ó­geð­fellda sögu af fram­hjá­höldum, alveg hörmu­lega og það eru svo mikið af frá­bærum lögum um fram­hjá­höld á plötunum þínum,“ sagði Dax í hlað­varpinu og þóttist vita að söngvarinn ætti aðra eins sögu.

Ó­heiðar­legur og sjálfs­elskur

Legend viður­kenndi að hann ætti á­líka feril að baki sér. „Alveg klár­lega þegar ég var á þrí­tugs­aldri,“ sagði söngvarinn sem varð ný­lega 41 árs. Hann sagði að í sínu til­viki hafði hann ekki notið mikillar at­hygli kven­peningsins í mennta­skóla og hafði því elskað at­hyglina sem hann fékk þegar hann varð eldri.

„Ég slapp við að „bók­staf­lega halda fram­hjá“ með því að skil­greina ekki sam­bönd mín, en ég var í al­vörunni að halda fram­hjá,“ sagði Legend. „Ég var tví­mæla­laust ó­heiðar­legur og sjálfs­elskur..það átti sér líka stað áður en ég varð frægur.“

Chrissy Teigen og Legend ásamt börnum þeirra.
Mynd/Instagram

Allt breyttist með Teigen

Óskars­verð­launa­hafinn út­skýrði að eftir að hann hitti Teigen, sem hann giftist árið 2013 og á tvö börn með, hafi allt breyst.

„Á á­kveðnum tíma­punkti gerir maður sér grein fyrir því að maður sé hamingju­samari þegar maður er hrein­skilinn. Maður er hamingju­samari þegar maður er trúr og ást­fanginn af einni mann­eskju.“ Það sé ein­mitt það sem kom fyrir þegar hann hitti ofur­fyrir­sætuna.

„Ég á­kvað bara að manneskjan fyrir mig væri Chris­sy. Ég á­kvað að ég ætlaði ekki að fara slá mér upp með neinum öðrum lengur.“

Parið hefur nú verið hamingju­sam­lega gift í sjö ár og rata iðu­lega í fréttirnar fyrir skemmti­legar upp­á­komur sínar.

Ferillinn í molum

Dax spurði hvort það jyki ekki þrýstinginn á sam­bandið að vera sí­fellt í heims­pressunni. „Ég held að það geri það jafn­vel enn ó­lík­legra að ég myndi gera eitt­hvað til að klúðra þessu,“ sagði Legend og minnti á að eigin­kona hans væri með 12 milljón fylgj­enda á Twitter.

„Ef ég myndi gera eitt­hvað myndi það rústa ferlinum mínum. Það væri hræði­legt. Það gefur manni bara aðra á­stæðu til að f**** þessu ekki upp.“