Jóhannes Haukur Jóhannesson hefur blandað sér í hið mikla deilumál hvort fjarlægja eigi límmiða af Iittala-vörum eða leyfa þeim að vera.
„Þetta á að fara af. Alltaf,“ skrifaði Jóhannes Haukur á Instagram þar sem hann birti mynd af nokkrum límmiðum sem hann hafði fjarlægt af Iittala-vörum á heimili hans og eiginkonu hans Rósu Bjarkar Sveinsdóttur.

„Sérstaklega ef þetta er á glösum, þá finnst mér þetta algjörlega galið. Þetta er bara hluti af umbúðum, “ segir leikarinn í samtali við Fréttablaðið. Hann hafi fengið jákvæð viðbrögð við myndinni og ekki fengið yfir sig holskeflu reiðispósta.
„Það voru bara nokkrir sem voru sammála mér. Ég held að fólkið sem vill hafa þessa límmiða sé bara að skammast sín, réttilega,“ segir Jóhannes Haukur.
„Þetta er voða mikið bara að predika fyrir kórinn en þetta fólk er til sem vill hafa þetta á. Ég held að það sé meira bara misskilningur en hörð afstaða. Misskilningur og kjánaskapur jafnvel.“
Hann segir þau hjón sammála um að fjarlægja eigi Iittala-límmiðana og engar deilur á heimilinu. „Enda myndi ég enda þær deilur snarlega með að kroppa þetta bara af,“ segir Jóhannes Haukur að lokum.