Myndlistarmaðurinn Jóhanna Þórhallsdóttir opnar sýninguna Ástin er græn í Gallerí Göngum í Háteigskirkju á morgun, fimmtudag 1. desember, klukkan 17.
„Yfirskrift sýningarinnar, Ástin er græn, vísar í textann Meine Liebe ist Grün, ljóð eftir Felix Schumann sem Brahms samdi eftirminnilegt lag við. Það ljóð hljómaði í huga mér þegar ég var að mála við Dónárbakka í bænum Ybbs í Austurríki í haust og rímaði einkar vel við liti Dónár sem er með mörgum grænum tónum. Og hvað er ástin einmitt annað en græn og græðandi?“ segir Jóhanna um sýninguna.
Jóhanna er nýkomin frá Vínarborg þar sem hún hlaut heiðursverðlaun í Atelier an der Donau fyrir mynd sína Meine Liebe ist Grün. Nokkrar myndanna sem sýndar verða voru málaðar í Austurríki undir áhrifum þaðan. Þetta er tíunda einkasýning Jóhönnu en fyrsta sýning hennar var í Anarkíu listasal í Kópavogi 2014. Jóhanna lagði stund á myndlistarnám í Þýskalandi og lærði meðal annars hjá prófessor Markus Lüpertz.
