Jóhanna Guðrún Jónsdóttir söngkona segir að enginn fari inn í hjónaband með það í huga að skilja. Samt sem áður sé staðreyndin sú að helmingur allra hjónabanda endar með skilnaði.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í einlægu viðtali við Jóhönnu Guðrúnu í hlaðvarpsþættinum Normið á vef Vísis. Í viðtalinu er farið um víðan völl og talar Jóhanna Guðrún meðal annars um skilnað sem hún gekk í gegnum fyrr á þessu ári.

Jóhanna segist hafa lagt áherslu á slökun að undanförnu og þurft að gera upp við sig hvernig hún ætlar að hafa framhaldið.

„Þetta eru stórar breytingar. Ég finn að ég get ekki unnið jafn mikið akkúrat núna. Ég þarf að velja mér verkefni,“ segir hún. Það erfiðasta við að skilja segir hún að börnin séu ekki lengur hjá mömmu og pabba eins og áður. Þá viðurkennir hún að hafa haft fordóma fyrir skilnaði sem hún þurfti að kyngja.

„Ég viðurkenni það sjálf að ég var mjög fordómafull gagnvart skilnuðum af því að ég á foreldra sem hafa verið saman síðan þau voru fimmtán ára,“ segir hún meðal annars en tekur fram að hún sé á góðum stað í dag.

Jóhanna Guðrún hefur um margra ára skeið verið ein allra fremsta söngkona landsins og tekið þátt í Eurovision fyrir Íslands hönd. Náði hún 2. sætinu í eftirminnilegri Eurovion-keppni árið 2009.