Tón­leika­upp­færsla á einum vin­sælasta söng­leik heims, Evíta, fer fram í Hörpu um miðjan nóvember þar sem Jóhanna Guð­rún fer með hlut­verk Evu Perón. Í mynd­bandi frá fyrstu æfingunni má sjá Jóhönnu syngja lagið Don‘t Cry for me Argentina sem söng­konan Madonna gerði ó­dauð­legt í kvik­myndinni Evita frá árinu 1996 og gefur Jóhanna Madonnu ekkert eftir.

Upp­selt er á sýninguna föstu­daginn fimm­tánda nóvember en örfá sæti eru laus á sýninguna um laugar­dags­kvöldið. Þá er einnig búið að bæta við síð­degis­tón­leikum á laugar­deginum sem veitir tón­leika­gestum tæki­færi til að njóta alls kvöldsins að lokinni skemmtun og ræða upp­lifunina yfir góðum kvöld­verði.

Kom fyrst út árið 1976

Söng­leikurinn Evíta er úr smiðju Andrew Lloyd Webber og Tim Rice en tón­listin kom fyrst út á hljóm­plötu árið 1976 og var síðan settur upp tveimur árum síðar í Lundúnum. Verkið hefur reglu­lega verið sett upp síðan en líkt og komið hefur fram fór Madonna með aðal­hlut­verk í kvik­myndinni sem byggð var á söng­leiknum.

Verkið fjallar um argentínsku þjóð­hetjuna og stjórn­mála­leið­togann Evu Perón og sögu hennar en hún var seinni eigin­kona for­seta Argentínu, Juan Perón. Sagt er frá upp­vaxtar­árum Evu og leið hennar til valda allt til skyndi­legs dauða hennar árið 1952.

Með aðal­hlut­verk fara Jóhanna Guð­rún sem Eva Perón, Þór Breið­fjörð sem Juan Perón, Salka Sól sem hjá­kona Peróns áður en Eva kemur til sögunnar og Helgi Björns sem tangó­söngvarinn Augustin Magaldi. Þor­valdur Bjarni Þor­valds­son stýrir 18 manna, blandaðri rokk- og klassískri hljóm­sveit Sin­foniaNord og 60 manna kór Söng­sveitarinnar Fíl­harmóníu í þessari fjöl­mennu tón­leika­upp­færslu.