Jó­hann Al­freð Krist­ins­­son og Lauf­ey Har­alds­dótt­ir eru nýir spurn­inga­höf­und­ar og dóm­ar­ar í Gettu bet­ur, spurn­inga­­keppni fram­halds­­skól­anna. Þetta kem­ur fram í til­­kynn­ingu.

Jóhann Al­freð er lög­fræðingur frá Há­skóla Ís­lands en hefur á um­liðnum árum starfað sem skemmti­kraftur, meðal annars með uppi­stands­hópnum Mið-Ís­landi, að þátta­gerð og við markaðs- og kynningar­mál. Hann stýrir spurninga­þættinum Heila­hristingi sem er á Rás 2 á laugar­dögum.

Lauf­eyju ættu á­horf­endur Gettu betur að kannast við því að hún var í sigur­liði Kvenna­skólans á­samt Bjarna Lúð­víks­syni og Bjarka Frey Magnús­syni þegar skólinn bar sigur úr bítum í fyrsta sinn, árið 2011. Þar með varð Lauf­ey fyrsti kven­kyns keppandinn til að vinna Gettu betur. Lauf­ey er leik­kona og hefur síðustu ár fengist við leik­list, uppi­stand, greina­skrif og fleira, bæði í Bret­landi og hér heima.

„Sem fyrr­verandi keppandi hlakka ég mikið til að ögra nýrri kyn­slóð Gettu betur-kepp­enda. Ég veit að sumir kepp­endur reyna að læra inn á dómarana þannig að ég ætla að gera mitt besta til að vera svo­lítið ó­út­reiknan­leg,“ segir Lauf­ey.

Hún segir jafn­framt að stærsta breytingin síðan hún keppti sé að það sé búið að jafna kynja­hlut­fall kepp­enda, sem var gert 2013.

„Mér þykir keppnin náttúru­lega miklu skemmti­legri svo­leiðis. Allar keppnir sem ég keppti í sjón­varpi voru á móti bara strákum og þó þeir séu á­gætir greyin þá verður leiðin­legt til lengdar að vera alltaf eina stelpan,“ segir Lauf­ey.

Jóhann Al­freð segist einnig spenntur fyrir verk­efninu og það sé mikill heiður að fá tæki­færi til að gegna hlut­verki dómara í þessari rót­grónustu spurninga­keppni landsins.

„Ég er nánast jafn­gamall keppninni, ólst upp við að missa varla af þætti og hef alltaf verið súperað­dáandi. Ég hlakka til þegar við förum af stað eftir ára­mót að fá tæki­færi til að kynnast liðunum og að­stand­endum keppninnar,“ segir Jóhann Al­freð.

Kristjana Arnars­dóttir verður spyrill og Sæ­var Helgi Braga­son lið­sinnir spurninga­höfundum líkt og fyrri ár. Hand­hafi Hljóð­nemans, farand­grips keppninnar, er lið Mennta­skólans í Reykja­vík sem vann lið Borgar­holts­skóla síðast­liðinn vetur. Fyrri um­ferð keppninnar verður streymt á vef RÚV 4.-7. janúar. Sjón­varps­hluti keppninnar hefst á RÚV föstu­daginn 5. febrúar.

„Þegar ég var krakki og horfði á Gettu betur langaði mig að vera Logi Berg­mann en mér virðist ætlað að gegna öllum stöðum í keppninni öðrum en að vera spyrill. Það er kannski kominn tími til að sætta mig við að ég verð ekki Logi Berg­mann þegar ég verð stór,“ segir Lauf­ey.