Jogginggallar hafa mikið sést á tískusýningum undanfarið, en þegar Lacoste kynnti vetrartískuna á tískuvikunni í París í haust mátti sjá jogginggalla í ýmsum litum. Margir voru með óhefðbundnu sniði og jafnvel poppaðir upp með því að para þá við spariskó og snyrtilega leðurhanska og jafnvel síðar skinnkápur.

Stílistinn Maria Barteczko sást í gráum jogginggalla við gula kápu á tískuvikunni í Kaupmannahöfn.

Þá hefur sést til fólks mæta á uppákomur á förnum vegi, þar sem snyrtilegur klæðnaður er æskilegur, klætt jogginggalla og síðkápum líkt og sést hefur á sýningarpöllunum og jafnvel í háhæluðum skóm við. Fólk hefur einnig sést í jogginggöllum með skartgripi og í fallegum kápum við á leið til vinnu og við annað hversdagslegt amstur. Það er því ljóst að jogginggallar í dag eru langt frá því að vera einungis ætlaðir til íþróttaiðkunar og útivistar ásamt því að vera auðvitað einstaklega þægilegur heimaklæðnaður. Jogginggallatískan virðist falla vel í kramið hjá ríka og fræga fólkinu sem oft leggur línurnar í tísku almennings. Söngkonan vinsæla, Billie Eilish, sést sjaldan í öðru en jogginggalla en hún hefur sést í slíkum við hinar ýmsu verðlaunaathafnir, oftast frá þekktum hönnuðum.

Söngkonan Billie Eilish notar jogginggalla við flest tilefni. Hér er hún á bresku tónlistarverðlaununum.

Það vekur eflaust ánægju margra að kósí heimafatnaður sé í tísku en það er fátt þægilegra en víður jogginggalli. Ef fólk er ekki of upptekið af merkinu er líka hægt að fá jogginggalla á frekar góðu verði. Þá má svo bara poppa upp með skartgripum og leðurhönskum, sólgleraugum og töff skóm, líkt og Hollywoodstjörnurnar gera og þá er kominn hinn fínasti samkvæmisklæðnaður. Það er nefnilega algjör óþarfi að tolla ekki í tískunni þó að fólk kjósi þægilegan klæðnað.

Fyrirsæta í skræpóttum joggingalla á tískuhátíðinni í Melbourne í Ástralíu sem fór fram snemma í mars.

Fyrir þau sem eru í heimasóttkví er líka tilvalið að klæða sig í jogginggalla til að hressa sig við og upplifa sig smart. Það má dunda sér við að finna klúta og skart og fylgihluti sem fara vel við jogginggallann svo hægt sé að líða eins og stjörnu meðan setið er uppi í sófa og hámhorft á þætti á Netflix. Nú og ef það kemur asnalega út þá gerir það ekkert til því vitnin eru fá.

Haust og vetrartískan 2020-2021 hjá Lacoste inniheldur alls kyns jogginggalla.