Næsta föstudag fer fram einstakt núvitundarpartí í Norðurljósasal Hörpu. Það er haldið af Krafti í samstarfi við Yogashala og Yogamoves. Plötusnúðarnir Dj Margeir og Dj Yamaho þeyta svo skífum á meðan Tómas Oddur og Ingibjörg leiða þátttakendur í sturlað jógadanspartí, hugleiðslu og svo tónheilun í lokin.

Allir gefa vinnu sína

„Viðburðurinn er til styrktar Krafti sem er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Í ár höfum við verið með viðburð í kringum 20. hvers mánaðar í tilefni af 20 ára afmæli félagsins.

Við fengum þetta góða fólk til liðs við okkur til að koma fólki í núið og styrkja í leiðinni gott málefni,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Hulda segir alla sem koma að viðburðinum gefa vinnu sína.

„Margeir hefur staðið fyrir karnivalinu á Klapparstíg sem nánast allir landsmenn þekkja. Tómas hefur verið þar að leiða fólk inn í samblöndu af jóga og dansi. Hann fær fólk til að byrja að hreyfa sig við tónlistina. Þannig að þeir eru mjög vanir því að fá fólk til að koma saman og dansa.“

Með viðburðinum segir Hulda þau vilja hvetja fólk til að lifa í núinu og njóta með jóga og dansi undir magnaðri tónlist.

„Það geta líka allir tekið þátt. Þú þarft ekki að kunna jóga eða að dansa. Þetta snýst bara um að þú mætir í þægilegum fötum með jógadýnuna þína, tryggir þér miða og styrkir gott málefni í leiðinni.“

Núvitundarpartí lá vel við

Félagið hefur verið áberandi og duglegt að hvetja okkur til umhugsunar um stöðu ungs fólks sem greinist með krabbamein og það erfiða ferli sem bæði það og aðstandendur þess ganga í gegnum.

„Við höfum gefið út bók, podkast, verið með Lífið er núna-hlaup og ýmislegt fleira til að vekja fólk til umhugsunar um þennan hóp sem greinist hvert ár, sem er um 70 manns á þessum aldri.“

Hún segir félagið hafa langað til að halda viðburð þar sem fólk gæti komið saman og jafnvel gleymt stað og stund, og því hafi núvitundarpartí legið vel við.

„Okkur langaði að gera fólki kleift að vera saman og lifa í núinu, einkennisorð félagsins hafa lengi verið Lífið er núna. Sú lína hefur fylgt félaginu nánast frá stofnun þess. Við höfum haldið þeirri línu á lofti með armböndum til dæmis og ýmiss konar varningi. Þegar okkar talsmenn koma fram eru þetta skilaboðin sem við viljum koma áleiðis,“ segir Hulda.

Hvetja fólk til að lifa í núinu

Hulda segir þau því hafa langað að taka þetta skrefinu lengra og hvetja fólk til að lifa í núinu.

„Við hvetjum fólk til að gefa sér rými til að koma og njóta næsta föstudagskvöld. Þetta er fyrir alla. Þess vegna alla fjölskylduna.“

Það er ýmislegt spennandi í kortunum hjá Krafti, þar á meðal gerð heimildarmyndar um félagið sem verður frumsýnd síðar fyrir félagsmenn.

„Hún verður frumsýnd fyrst fyrir félagsmenn. Ég vona síðan bara að sjá sem flesta á föstudaginn í Norðurljósasalnum, lifandi í núinu.“

Miða á viðburðinn er hægt að nálgast á harpa.is en allur ágóðinn rennur óskiptur til Krafts. Viðburðurinn hefst klukkan 20.00 og stendur til 22.00.