Leikarinn Joaquin Phoenix segist skammast sín fyrir það hvernig hann hegðaði sér á köflum á meðan tökum stóð á kvik­myndinni The Joker sem væntan­leg er í kvik­mynda­hús næstu helgi. Phoenix var gestur spjall­þátta­stjórnandans Jimmy Kimmel sem kom honum á ó­vart með mynd­bandi af hegðun hans.

Var Phoenix gjarn á að strunsa út af setti ef hann var ekki nógu á­nægður og í mynd­bandinu hér að neðan á mínútu 8:25 segir hann manni sem heitir Larry meðal annars að þegja og hætta að hvísla, áður en Pheonix gengur út af settinu.

„Þetta er svo vand­ræða­legt. Stundum verða myndir svo rosa­lega spennu­þrungnar því það er mikið af fólki á litlum fleti og þú ert að reyna að finna eitt­hvað, svo þú ert spenntur,“ segir leikarinn. „Ég skammast mín fyrir þetta, mér þykir þetta leitt og þykir leitt að þið hafið þurft að sjá þetta.“