Leikarinn Joaquin Phoenix missti tæp 24 kiló fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Joker. Í viðtali við Associated Press segist Phoenix hafa þróað með sér þráhyggju fyrir þyngdartapinu - hafi velt sér upp úr hverjum hundrað grömmum.

Joaquin segir þó að þyngdartapið hafi líka haft ýmislegt jákvætt í för með sér. Líkamlega hafi hann verið í góðu standi sem hann segir hafa gert sér hægara um vik að leika í kvikmyndinni, sem var að hans sögn líkamlega krefjandi.

Phoenix við frumsýningu myndarinnar þann 30. september, orðinn líkari þvi sem hann á að sér að vera.

Hins vegar hafi verið mjög erfitt að vakna á hverjum degi og gaumgæfa hver hundrað grömm sem hann kunni að hafa misst eða bætt á sig. „Maður er bara að þróa með sér einhvern sjúkdóm. Þetta er rosalegt.”

Phoenix segist ekki hafa borðað bara eitt epli á dag. „Neinei, þetta var ekki eitt epli á dag. Ég var líka með soðnar baunir og kálblöð á matseðlinum,” sagði hann, léttur í bragði.

24 kílóum léttari.