Tónlistarmennirnir Jo Berger Myhre og Ólafur Björn Ólafsson kynntust á fótboltaæfingu 2015 þegar Norðmaðurinn Jo bjó hérna með íslenskri eiginkonu sinni. Fáum sögum fer af knattspyrnuafrekum þeirra en þeir fundu aftur á móti fljótlega taktinn utan vallar og byrjuð að spila og semja tónlist saman með slíkum ágætis árangri að þeir fagna annarri plötu sinni, Lanzarote, með út­gáfu­tón­leikum í Mengi í kvöld.

Óli leikur á hljómborð og trommur en Jo plokkar tvöfaldan bassa af mikilli íþrótt og magnar hljóminn með alls konar rafgræjum. Þeir segjast sækja innblástur helst til hvors annars og þegar þeir loka sig af með hljóðfærin fari allt í gang og þeir elti pælinga hvors annars á víxl.

Múskíkalskar tilraunir þeirra hafa gengið með slíkum ágætum að plöturnar með norsk/íslenskum bræðingnum eru orðnar tvær. Sú fyrri, The third script kom út 2017 og var tilnefnd til Spellemannprisen, sem Óli segir að megi lýsa sem norsku Grammy-verðlaununum.

Lanzarote kom svo út hjá norsku útgáfunni Hubromusic í lok síðustu viku og hægt er að njóta tónlistarinnar á gamla góða vínýlnum, gamaldags geisladiski og mjög svo nýmóðins streymi.

Hvað tónlistina sjálfa varðar segir Óli erfitt að skilgreina hana enda hafi hún hlotið tilnefningu í opnum flokki Spellemannprisen. Jo segir þá félaga freista þess að skapa tónlist sem sé krefjandi og aðgengileg í senn „og við reynum að víkka sjóndeilarhring okkar og vonandi líka þeirra sem ljá tónlistinni okkar eyra.“

Öll er tónlistin instrúmental og þeir félagar segjast hafa tekið stórt stökk frá The third script yfir í Lanzarote sem þeir tóku upp á um það bil einu ári í Osló og Reykjavík.

Óli hefur látið að sér kveða í íslensku tónlistarlífi í tvo áratugi og Jo hefur verið mjög virkur á tónlistarsenunni í Osló. Þeir eru segjast vera að mestu sjálfbæriri í tónlistarflutningi sínum en njóta aðstoðar blásturshljóðfæraleikaranna Eiríks Orra Ólafssonar og Inga Garðars Erlendssonar á nýju plötunni.

Blásararnir verða með Óla og Jo á tónleikunum í Mengi í kvöld þegar tónlistin af Lanzarote verður leikin opinberlega í fyrsta skipti. „Við erum mjög spenntir fyrir því að fá loksins tækifæri til þess að leika tónlistina af nýju plötunni,“ segir Óli og bætir við að spennandi tímar séu framundan hjá þeim þar sem plötunni verði fylgt eftir með tónleikaferðalagi um Evrópu á næsta ári.

Tónleikarnir verða sem fyrr segir í Mengi við Óðinsgötu 2 í kvöld og hefjast klukkan 21 en húsið opnar hálftíma fyrr og platan verður að sjálfsögðu til sölu þar í áþreifanlegum útgáfum.