Guðfinnur Ýmir Harðarson ólst upp við að fara til ömmu sinnar á jólunum í mikið skreytt hús og þó að hann sé ekki kristinn heldur hann hefðinni við og skreytir íbúðina sína af miklu kappi um hver jól.
Guðfinnur Ýmir Harðarson jólaskreytingahetja er mjög mikið jólabarn og skreytir heimilið af miklum krafti fyrir hver einustu jól, þrátt fyrir að geta bara skreytt innandyra því hann býr í fjölbýlishúsi.
„Þegar ég var lítill bjó ég með mömmu minni í Noregi en kom svo alltaf til Íslands til að vera með fjölskyldunni um jólin. Þá fór ég til ömmu minnar og hitti alla fjölskylduna. Amma hélt alltaf rosalega stór jól og hún átti börn, barnabörn og barnabarnabörn, svo húsið var alltaf troðfullt af fólki,“ segir Guðfinnur. „Aðfangadagur var því alltaf besti dagur ársins fyrir mér. Þá var allt fullt af gjöfum, góðum mat, fólki og skrauti. Allir voru glaðir og það var alltaf rosalega gaman hjá okkur.“
Guðfinnur segist ekki vera kristinn, en að hann hafi miklar mætur á Jesú.
„Mér líkar rosa vel við Jesú og dæmisögurnar um hann. Hann var frábær gaur,“ segir hann. „Hann er uppáhaldsofurhetjan mín og mér finnst gaman að halda upp á afmælið hans á jólunum.“


Eitt stórt skraut á ári
„Þegar ég var lítill leið mér alltaf eins og það væri allt skreytt frá gólfi til lofts hjá ömmu. Fyrir um sjö árum síðan fór ég svo að taka þessa hefð upp,“ segir Guðfinnur. „Ég bjó í mjög litlu rými en ég átti eitthvert skraut, meðal annars frá ömmu, en miðað við hvað rýmið var lítið var ég með ótrúlega mikið skraut. Svo þegar ég flutti í stærra rými bætti ég við skrauti til að halda hlutföllunum svipuðum.
Svo færðist meiri alvara í skreytingarnar eftirt að Costco kom til landsins. Þá varð mögulegt að fá stórt skraut fyrir eðlilegt verð,“ segir Guðfinnur. „Ég er með þá reglu að ég má kaupa eitt stórt og dýrt skraut á hverju ári og svo leyfi ég mér að kaupa lítið skraut í IKEA og Costco til að fylla upp í eins og mér finnst þörf á. Það er bókhaldið sem setur reglurnar, ég myndi fara á hausinn ef ég sleppti mér alveg.
Ég kaupi jólaskraut líka bara alls staðar þar sem ég finn það yfir árið. Ég finn til dæmis oft skraut í Kolaportinu, Jólabúðinni, Góða hirðinum og stundum í útlöndum,“ segir Guðfinnur. „Ég hef líka gert mjög góð kaup á tombólu þar sem krakkar eru að selja eitthvað úr geymslunni á sumrin. Þannig finn ég oft mjög gott skraut, foreldrarnir vita ekki af hverju þau eru að missa.“


Vill helst byrja í október
„Venjulega byrja ég að skreyta í október. Þá fer ég að tína þetta upp eitt og eitt og vil vera búinn að skreyta snemma í nóvember. En núna er hrekkjavakan orðin svo stór viðburður að ég þurfti að gefa börnunum leyfi til að halda hana án þess að blanda jólunum í það,“ segir Guðfinnur. „Þannig að núna byrja ég strax eftir hrekkjavöku.
Ef ég mætti ráða væri þetta samt uppi allt árið og ekki tekið niður. En fólk finnst það víst ekki smart, ég veit ekki með það,“ segir Guðfinnur léttur.
„Alla jafna er ég með fjölbreytt skraut hér og þar í íbúðinni en ég tek það allt niður til að setja upp jólaskrautið og svo fylli ég alla glugga og svalirnar með ljósum. Ég reyni samt að gera það sem seinast, til að gefa nágrönnunum frið. En ljósin er mikilvæg út af myrkrinu, þetta er líka hátíð ljóssins,“ segir Guðfinnur. „Ég stútfylli bara allar hillur og öll pláss sem eru til af körlum, húsum, klukkum, jólasveinum, jólaseríum og öllu öðru sem ég finn. Það er heil hilla í geymslunni sem fer undir jólaskraut og það eru bara tvær hillur í geymslunni, þannig að þetta fyllir helminginn af henni.“


Vill skreyta eins og Griswold
Guðfinnur segir að skrautið sem hann fékk hjá ömmu sinni sé í mestu uppáhaldi en að hann sé líka alltaf spenntur fyrir stóra skrautinu sem hann kaupir fyrir hver jól. „Núna var ég að kaupa mér hrossagauksklukku í Costco sem ég er spenntur að setja í gang,“ segir hann.
Guðfinnur segir að þessari jólaskreytingagleði sé tekið vel af sambýliskonunni.
„Svo lengi sem ég fylgi reglunni um að taka þetta niður fljótlega eftir þrettándann. Ég væri samt til að hafa skrautið uppi út febrúar. Ég leyfi ljósunum að vera lengur, en skrautið sjálft fer aftur í geymslu,“ segir hann. „Ég hef aldrei fengið neina gagnrýni fyrir að skreyta svona mikið eða byrja snemma, en besta vinkona mín hatar reyndar jólin og hún hneykslast pínu á þessu, þannig að ég forðast að ræða þetta við hana. En stóra markmiðið er samt að eignast hús og skreyta það eins og Griswold-fjölskyldan í Christmas Vacation og gera allt vitlaust.“


Aðstoðar annan við skreytingar
Guðfinnur er samt ekki bara að huga að sínum eigin skreytingum í ár, heldur er hann líka að aðstoða mann á Stokkseyri við að skreyta hús.
„Hann var að kaupa sér hús þarna og nágrannar hans eru búnir að setja ljósin upp svo hann þarf að gera það líka. En hann ratar ekki í Costco og hefur ekki mikið vit á þessu þannig að ég fer með honum og ætla að skreyta húsið hans,“ segir Guðfinnur kíminn. „Þetta er svona gæluverkefni hjá mér og smá undirbúningur fyrir það þegar ég eignast mitt eigið hús.
Ég ætla að hjálpa honum að kaupa það rétta, réttu lengdir af ljósum og svona hitt og þetta. Það er auðvelt að klúðra þessu með því að kaupa of stuttar snúrar eða vanta framlengingar. Þá getur þetta orðið ljótt eða bara algjört vesen,“ segir Guðfinnur. „Svo þarf líka að passa að vera með nóg, til að klæða ekki bara helminginn af húsinu, það er asnalegt. Ég held að það sé hins vegar aldrei hægt að gera of mikið, það þarf bara að taka þetta alla leið.
Þetta er fyrsta „námskeiðið“ sem ég held, en hver veit nema þeim fjölgi eftir þessa umfjöllun,“ segir Guðfinnur að lokum og hlær.
