Söngkonan og tískuhönnuðurinn lét allt vaða í nýju viðtali við tímaritið People þar sem hún kynnir nýju sjálfsævisögu sína sem ber heitið Open Book. Hún gefur sambandi sínu við tónlistarmanninn John Mayer góð skil í bókinni og sagði söngvarann hafa verið heltekinn af henni.
„Hann sagði mér aftur og aftur að hann væri heltekinn af mér bæði andlega og kynferðislega.“ Parið hittist árið 2005 og byrjuðu saman ári seinna. Samband þeirra var nokkuð slitrótt en þau héldu sambandi í um það bil ár. „Hann sagði að hann vildi mig eiga mig alla eða sleppa því.“
Upplifði óöryggi
Simpson viðurkennir að þrátt fyrir að þau hafi átt góða tengingu hafi hún verið óörugg í sambandinu. „Ég hafði stöðugar áhyggjur af því að ég væri ekki nógu klár fyrir hann.“ Mayer hafi verið gáfaður og hafi oft látið eins og samræður væru vinsamleg keppni.
Óöryggið hafi orðið til þess að hún hafi stöðugt neytt meira áfengis. „Þarna byrjaði ég að nota áfengi til að fela tilfinningar mínar.“ Sambandið endaði stuttu þar á eftir.

Dauðskammaðist sín
Nokkrum árum eftir að tónlistafólkið sleit sambandi sínu fór Mayer í viðtal við Playboy þar sem hann ræddi meðal annars samband sitt við Simpson. „Hún var eins og eiturlyf fyrir mér. Kynlífið var sturlað, það er það eina sem ég geta sagt,“ sagði Mayer og lýsti Simpson sem algerri kynbombu.
„Hann hélt að ég myndi vilja láta tala svona um mig.“ Það hafi verið misskilningur enda dauðskammaðist Simpson sín fyrir viðtalið. „Ég skammaðist mín fyrir að amma mín myndi lesa þetta um mig.“ Hún segir viðtalið hafa gert henni auðveldara fyrir að gleyma Mayer og eyða tónlistinni hans af spilunarlistum sínum.
Sjálfsævisaga Simpson kemur út fjórða febrúar en þar fjallar hún frægðina, neysluna og kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir í æsku.
