Jeremy Clarkson, fyrrverandi þáttastjórnandi bílaþáttanna Top Gear, hefur legið undir mikilli gagnrýni vegna ummæla sinna um Meghan Markle, eiginkonu Harry Bretaprins.

Þetta kemur fram á fréttavef Independent en ummælin birti Clarkson í pistli sínum í dagblaðinu The Sun en þar segist hann fyrirlíta Markle og myndi helst vilja sjá hana ganga niður göturnar á meðan fólk hendi úrgangi í hana. „Hér ligg ég og gnísti tönnum á meðan mig dreymir um daginn þegar hún verður látinn ganga um götur allra bæja í Bretlandi á meðan fólkið öskrar að henni SKÖMM!" Sagði Clarkson meðal annars í pistli sínum.

„Öllum á mínum aldri líður eins með þetta mál“ sagði Clarkson einnig í pistli sínum.

Fjöldamargar stjörnur í Brelandi hafa nú stigið fram og fordæmt ummæli Clarkson sem fóru mjög fyrir brjóstið á mörgum.

Þar á meðal er uppistandarinn John Bishop sem sagði þetta „ósvífið ákall um að niðurlægja og ráðast gegn konu.“

Hann bætti einnig við í ummælum sínum að „sumir hafi reynt að afsaka ummælin sem svartan húmor. En þarna er engan brandara að finna og heldur enga afsökun.“

Þá kom einnig fjölmiðlakonan Carol Vorderman Markle til varnar. „NEI, Jeremy Clarkson það er ekki í lagi undir neinum kringumstæðum að skrifa nokkuð svona um nokkra konu,“ sagði meðal annars í tísti hennar.