Banda­ríska Óskars­verð­launa­leik­konan Jenni­fer Lawrence hélt að hennar síðasta stund væri runnin upp árið 2017 þegar bilun kom upp í einka­þotu sem hún var í.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í við­tali við hana í desem­ber­hefti Vanity Fair þar sem hún prýðir for­síðuna.

Vélin var á leið frá New York til Lou­is­vil­le í Ken­tucky þegar vélar­bilun kom upp. Um var að ræða býsna al­var­lega bilun og til­kynnti flug­stjóri vélarinnar að hann þyrfti að reyna lendingu strax.

Lawrence segir að hún hafi verið svo sann­færð um að hennar síðasta stund væri runnin upp að hún hefði tekið upp skila­boð til fjöl­skyldu sinnar á símann sinn. Þá segir hún það hafa gert slæmt á­stand enn verra að hún var með hundinn sinn hjá sér í kjöltunni.

Mikill við­búnaður var á flug­vellinum í Buffa­lo þar sem vélin lenti og biðu meðal annars sjúkra­bílar og slökkvi­liðs­bílar við flug­brautina. Áður en vélin lenti segist Jenni­fer hafa farið með bænir og alls­konar hugsanir hafi flogið í gegnum huga hennar. „Kannski mun ég brenna mjög illa, kannski verður þetta mjög sárt, en kannski komumst við lífs af frá þessu.“

Það er skemmst frá því að segja að lendingin gekk vel og sluppu allir heilir frá ó­hugnan­lega flug­at­viki.