Bandarísku stórstjörnurnar úr sjónvarpsþáttaseríunum Friends minnast fallins vinar á samfélags miðlum sínum. James Michael Tyler sem lék hinn eftirminnilega kaffibarþjón Gunther í þáttunum lést í gær aðeins 59 ára gamall eftir erfiða baráttu við krabbamein.

Tyler greindist með krabba­mein í blöðru­háls­kirtlinum árið 2018 en það dreifði sig síðan inn í bein. Í júní var greint frá því að hann væri lamaður fyrir neðan mitti vegna krabba­meinsins.

Tyler birtist í næstum 150 Friends þáttum frá 1994 til 2004.

BBC hefur tekið saman ellefu skemmtilegustu augnablik hans úr þáttunum.

Meðal þeirra sem minnast Tylers eru Jennifer Aniston, Courteney Cox, Matt LeBlanc, Lisa Kudrow og David Schwimmer. Þau fóru öll með aðalhlutverk í þáttunum geysivinsælu.

Aniston sagði þættirnir hefðu ekki verið þeir sömu án hans. Takk fyrir hláturinn og gleðina sem þú komst með inn í þættina, segir Aniston og bætir við að hans verði saknað.

Cox segist eiga honum mikið þakklæti að þakka.

Kudrow segir að hans verði sárt saknað og þakkar Tyler fyrir að hafa verið til staðar fyrir þau öll.

LeBlanc deilir mynd af þeim félögum úr þáttunum og segir að þeir hafi deilt mikilli gleði saman og bætir við að hans verði sárt saknað.

Schwimmer þakkar Tyler fyrir ógleymanlegt hlutverk í þáttunum. Einnig þakkar hann honum fyrir að hafa verið hjartahlýtt ljúfmenni.