Jenna Jameson, sem um langt skeið var vinsælasta klámmyndaleikkona heims, er enn á sjúkrahúsi eftir að hafa verið lögð inn í síðustu viku. Page Six greinir frá þessu.
Lior Bitton, maki Jennu, greindi frá þessu í gær en í fyrstu lék grunur á að Jenna væri haldin hinum svokallaða Guillian-Barré sjúkdómi. Um er að ræða bólgusjúkdóm þar sem ónæmiskerfið ræðst á eigið úttaugakerfi. Einkennin þóttu að minnsta kosti benda til þess enda missti Jenna mátt í útlimum og hætti skyndilega að geta gengið.
Bitton segir að læknar hafi staðfest að ekki væri um Guillian-Barré að ræða í tilfelli Jennu. Sagði hann að rannsóknir standi enn yfir og lofar hann að halda fylgjendum sínum upplýstum um gang mála.
Bitton, sem er kaupsýslumaður frá Ísrael, fór með Jennu á sjúkrahús í síðustu viku en þá hafði hún kastað nær látlaust upp í tvær vikur. Þegar hún byrjaði að missa mátt í fótum fór hann með hana á sjúkrahús þar sem hún hefur dvalið síðan. Jenna og Bitton eiga saman fjögurra ára dóttur.