Banda­ríski leikarinn Jason Momoa hefur beðist af­sökunar á að hafa tekið myndir í hinni sögu­frægu Six­tínsku kapellu í Róm. Momoa er staddur á Ítalíu um þessar mundir þar sem tökur standa yfir á tíundu myndinni í Fast & Furious-seríunni, Fast X.

Momoa birti myndir af sér á Insta­gram þar sem hann var í kapellunni með nokkrum vinum og að­dá­endum. Fylgj­endur leikarans – og ef­laust fleiri – voru þó fljótir að benda á að mynda­tökur eru strang­lega bannaðar í kapellunni.

Momoa birti svo mynd­band af sér á Insta­gram í gær­kvöldi þar sem hann baðst af­sökunar á þessari yfir­sjón. „Þetta var síðasti dagurinn minn í Róm og ég hrein­lega elska borgina og Ítalíu. Það var ekki ætlun mín að sýna menningar­arfi ykkar van­virðingu […] Hafi ég gert það biðst ég af­sökunar.“

Þá bætti hann við að hann hafi borgað ó­til­greinda upp­hæð til kirkjunnar til að geta verið út af fyrir sig í kapellunni og notið hennar.