Raphael er vöruhönnuður og Ylona er með bakgrunn í myndlist og hefur starfað á vegum nokkurra evrópskra hönnunartvíæringa. „Við hittumst á Íslandi og tengdumst strax yfir sameiginlegum áhuga á hráefnarannsóknum. Natalia, sem er búsett í Bretlandi, bættist við teymið í fyrra en hún er myndlistarmaður og keramikhönnuður og hefur mikla tæknilega þekkingu í keramikinu,“ segir Ylona.

Á tilraunastigi

innriinnri hefur vakið athygli hér heima og á heimsvísu fyrir einstaklega fallegar og formfagrar náttúrulegar leirflísar sem þríeykið framleiðir úr leir blönduðum íslensku basalti og eru glerjaðar með íslenskum kísli. „Verkefnið er enn á tilraunastigi en nú þegar hafa fyrirtæki haft samband við okkur og vilja fá að selja það sem við höfum verið að búa til. Eins og er erum við ekki tilbúin að fara í stóra framleiðslu strax en það kemur vonandi seinna,“ segir Ylona.

Vinskapur Ylonu og Raphaels hófst þegar þau byrjuðu að vinna saman að innriinnri 2017.
Fréttablaðið/Eyþór

Hið innra

Nafnið innriinnri merkir „að innan“ eða „að innanverðu“ og vísar í hið innra og það sem hluturinn eða efnið stendur fyrir. „Í innriinnri rannsökum við það hvernig hlutur getur miðlað efnum í umhverfinu á mörkum eðlisvísinda, hönnunar og myndlistar. Við sækjum innblástur fyrir rannsóknir okkar og verkefni með því að vera í stöðugu samneyti við íslenska náttúru og í beinu samstarfi við vistkerfin sem skapa hana. Við köllum það að vera „site-respondent“ sem merkir að okkar starf er svar við staðsetningunni, það er Íslandi,“ segir Ylona.

Raphael nefnir í þessu samhengi að Ísland er eldfjallaeyja og um 90% af landinu eru úr basalti. „Eyjan breiðir úr sér með jarðfræðilegri virkni á tímaskala sem er algerlega fyrir utan skilning mannsins. Við fórum síðustu helgi upp að eldgosinu við Fagradalsfjall og frá því að gosið hófst í febrúar, hefur það nú þegar framleitt 109 rúmmetra af efni á svæði sem nær yfir 4,8 ferkílómetra og er stækkandi. Með innriinnri skoðum við ýmsar aðferðir og tækni til að nota þennan stækkandi hráefnisbrunn sem Ísland er, og framleiða nýstárlega hluti. Þannig eru við í samtali við tímaskala jarðfræðinnar, sem er svo ofurhægur að maðurinn nær ekki utan um hann,“ segir Raphael.

Eldfjallaeyjan Ísland er um 90% basaltsteind, eða blágrýti eins og það nefnist á ástkæra ylhýra.

SiO2, in V og in Form

Fyrsta verkefni innriinnri nefnist SiO2 (efnaformúla kísils)og snerist um að gera rannsóknir á kísli og basalti, en það eru tvö efni sem finnast í miklu magni hér á landi. Basalt í grjótinu og svo kísill í uppsprettum eins og Bláa lóninu og við Mývatn. „Við bjuggum til stóran basaltskúlptúr og komum honum fyrir í rannsóknarstofu Bláa lónsins yfir tímabilið sem HönnunarMars stóð yfir árið 2018. Efri hluti skúlptúrsins var slípaður á meðan neðri hlutinn sem snerti vatnið var haldið grófum. Á þeim tíma sem skúlptúrinn sat í lóninu náði kísillinn að tengjast skúlptúrnum og mynda eins konar glerjung þar sem efnin snertust. Við gerðum fullt af skissum og teikningum af útkomunni, rannsökuðum jarðfræði, náttúrulega uppbyggingu efnanna, liti, form og lögun. Þannig söfnuðum við gögnum til þess að skapa okkur fagurfræði sem kemur beint frá náttúrunni og virkni hennar,“ segir Ylona.

„Við héldum áfram með þessa hugmynd í verkefninu in V, sem var hluti af þúsund vasa sýningu á hönnunarvikunni í París 2018. Þá settum við lítinn vasa úr basalti í lónið til lengri tíma. Að vinna á slíkan hátt með náttúruöflunum gefur okkur tækifæri til að mynda djúpt samband við tímann og hvernig hann virkar í náttúrulegum ferlum. Vasinn ber þannig skýrt merki um hina ofurhægu jarðeðlisfræðilegu virkni tímans. Vasinn er ílát fyrir blóm, og ef hann væri skilinn eftir í vatninu í hundrað ár, þá myndi hraungambri, sem er sérstök mosategund, setjast þar að og nema land fyrir enn frekari gróðurmyndun,“ segir Raphael.

„Í verkefninu in Form, sem við kynntum ári síðar á HönnunarMars, skoðuðum við hvernig við gætum brætt og steypt basaltið. Þar sem þetta ferli þarfnast mjög öflugra véla þá rákumst við á nokkur tæknileg atriði sem urðu til þess að við þurftum að fresta þessum prófunum og vinna að því að stofna fleiri sambönd og sækja um styrki. Á þeim tíma sökktum við okkur enn dýpra í rannsóknir á möguleikum basalts og kísils,“ segir Ylona.

Kísill er eitt af algengustu steinefnum jarðarinnar og má vinna á margvíslegan máta. Hér hefur hann glerjað blágrýtishnullung.

Leir úr íslensku hráefnum

Árið 2019 hlaut verkefnið rannsóknarstyrk frá Hönnunarmiðstöð til að halda áfram með steinefnarannsóknir. „Í þessu verkefni erum við að skoða möguleika á því að þróa leir úr basalti með því að blanda basalt með ýmsum gerðum af innfluttum leir. Einnig erum við að skoða leiðir til að búa til glerjung úr kísli af hverasvæðum, sem og úr öðrum steinefnum sem finnast á eyjunni,“ segir Ylona.

Í verkefninu er mismiklu basalti blandað saman við leirgerðir og svo er efnið formað í þríhyrningslaga flísar, sem eiga að tákna QAPF-línurit sem jarðfræðingar nota til að greina steintegundir, (QAPF stendur fyrir kvars, alkalí feldspat, plagíóklas og feldspathoid). „Þessar mismunandi leirgerðir gefa okkur ólíka liti og áhugaverða áferð eftir því hvernig leirinn er bakaður,“ segir Ylona.

Nýta náttúruleg hráefni úr nærumhverfinu

Að sögn Ylonu sýna rannsóknir þeirra fram á áhugaverðar niðurstöður og eru þau spennt að halda áfram að prófa sig áfram með verkefnið. „Núna erum við að prófa að baka ílát sem við höfum hannað úr leirnum og skoða hvernig þau bregðast við mismunandi hitastigi í leirbrennsluofninum. Þá viljum við vera viss um að leirgerðirnar séu nothæfar til þess að framleiða mismunandi leirvörur, í samstarfi við framleiðendur á Íslandi, úr leir sem er mestmegnis úr íslenskum hráefnum. Við erum að nota náttúruleg efni úr nærumhverfi sem er umbreytt með grænni orku. Þannig takmörkum við misbeitingu á auðlindum sem tengist inn í hönnunarhugmyndafræði okkar, en við viljum bera sem mesta virðingu fyrir vistkerfinu. Þetta snýst um jafnvægi í því að nota hráefni á nýstárlegan máta en taka ábyrgð á heilbrigði jarðarinnar á sama tíma.“

Í in V-verkefninu létu þau basaltvasa standa í Bláa lóninu í fyrir fram ákveðinn tíma.
Kísillinn úr lóninu huldi neðri hluta vasans og glerjaði hann.
innriinnri blandar íslensku basalti saman við leir til að framleiða hráefni úr íslenskri náttúru.
Flísarnar eru úr nokkrum leirgerðum og glerjaðar með mismunandi steinefnum til að fá ólíkar áferðir og liti.