„Þetta er dagur sjö hjá mér. Ég fór í matarboð á föstudaginn og einn þar greindist með COVID-19 bara næsta dag og allir sem voru í boðinu þurfa bara að loka sig inni í tvær vikur,“ segir leikstjórinn Krist­ófer Dignus sem er einn þeirra sem geta auðveldlega sinnt starfi sínu að heiman.

Það hittist þannig á að tvær nýjar sjónvarpsseríur sem Kristófer leikstýrir eru í gangi um þessar mundir og sú þriðja, Jarðarförin mín, með Ladda í aðalhlutverkinu, fer í loftið skömmu fyrir páska.

RÚV sýnir Andrar á flandri um þessar mundir á meðan hægt er að fylgjast með Sveppa og Sverri, föður hans, á ferð um heiminn í Pabbi skoðar heiminn í Sjónvarpi Símans.

Góðir sjónvarpstímar

Þá má segja að tímasetningin á frumsýningu Jarðarfararinnar sé heppileg ef svo öfugsnúið má að orði komast. „Ég á eftir að leikstýra bíómynd,“ segir Kristófer um stóra skuggann yfir annars löngum og fjölbreyttum leikstjóraferlinum.

Kristófer Dignus leggur lokahönd á Jarðarförin mín, sem skartar Ladda í aðalhlutverki, á meðan hann er fastur í sóttkví.

„Ég er alltaf bara að naga mig í handarbökin yfir að ég sé ekki búinn að gera bíómynd. Orðinn þetta gamall og búinn að vera í bransanum svona lengi og alltaf endalaust að gera ógeðslega mikið sjónvarp.

Það er rosa gaman núna að gera leikið efni og það besta af öllu er að gera leiknar seríur. En það væri glatað ef maður væri að fara að frumsýna Jarðarförin mín- The Movie núna vegna þess að það er enginn að fara í bíó,“ segir leikstjórinn og bendir á hið augljósa.

„Þetta er alveg frábær tímasetning hvað það varðar að það eru bókstaflega mjög margir heima að bíða eftir skemmtilegu efni í sjónvarpi. Það er ljósið fyrir mér. Allavega að ég er að frumsýna seríu í sjónvarpi á þessum tíma sem mjög margir eru heima. Þetta er bara mitt vandamál og ég mun díla við það seinna meir og mun bara gera mína bíómynd þegar þar að kemur,“ segir hann og hlær.

Hógværi kletturinn

„Það er grín í öllu drama og drama í öllu gríni. Þetta er þannig dæmi, mannleg saga um breyskan mann og vandamálin sem hann þarf að yfirstíga,“ segir leikstjórinn um þáttaröðina Jarðarförin mín.

Þar leikur sjálfur Laddi mann sem greinist með ólæknandi heilaæxli sama dag og hann kemst á eftirlaun og vindur sér í að skipuleggja jarðarförina sína í kapphlaupi við dauðann og klukkuna.

„Þetta er gömul saga og ný en sögð og leikin af svo miklum snillingi að ég held að fólk eigi eftir að hafa virkilega gaman að því að sjá hann í þessu hlutverki.“

Kristófer Dignus leiðbeinir Ladda sem hann segir magnað að fylgjast með við tökur.

Laddi er náttúrlega þessi hógværi klettur sem gnæfir yfir íslensku gríni …

„Þetta er geggjuð lýsing á honum. Þú getur bara vitnað í sjálfan þig þarna. Ég hef náttúrlega unnið aðeins með honum,“ segir Kristófer og nefnir áramótaskaupin sem hann gerði 2013 og 2015 og þættina um Fólkið í blokkinni þar sem hann hafi meira verið að virkja þann frábæra skemmtikraft og grínista sem Laddi er.

Feimni grínistinn

„Sagan af því þegar hann kom fyrst að hitta mig í Glassriver, sem er framleiðslufyrirtækið, og krakkarnir þar hittu Ladda í fyrsta skipti … Þau höfðu aldrei hitt hann áður og voru í sjokki yfir hvað hann var feiminn og inn í sig,“ rifjar Kristófer upp.
„Ég held að allir sem hitta Þórhall í fyrsta skipti, eftir að hafa þekkt hann alla sína ævi sem Ladda, fái nett sjokk af því hann er bara hógværðin uppmáluð. Hann er svo inn í sig en innra með honum er þessi kraumandi listamaður og sprúðl­andi talent sem er alger unun að vinna með.“

Ekkert vesen

Kristófer bendir á að reynslumikið tökuliðið, sem hefur unnið við ótal kvikmyndir og þætti, með fjölda leikara, íslenskum og erlendum, hafi verið dolfallið yfir fagmennsku Ladda.

Laddi í þungum þönkum enda að mörgu að huga þegar tíminn er naumur og maður ætlar að mæta í sína eigin jarðarför.

„Það var aldrei vesen á honum. Hann var alltaf tilbúinn. Hann kunni alltaf textann sinn,“ segir Kristófer og lýsir stóískri rónni sem var alltaf yfir Ladda sama á hverju gekk en kvikmyndataka gengur sjaldnast snurðulaust fyrir sig.

„Það er alltaf eitthvað sem þarf að færa til eða laga. Stoppa eitthvað flæði og byrja aftur og þá bara steig hann til hliðar og fór í eitthvað svona „stand by mode“. Það var alveg magnað að fylgjast með þessu.

Hann bara passaði sig að vera ekki fyrir og svo bara sparaði hann orkuna. Starði út í tómið og bara beið. Svo þegar allir voru klárir var hann bara dottinn í karakter aftur eins og ekkert væri.“

Frasakóngurinn leynir á sér

Jarðarförin mín byggir á hugmynd Jóns Gunnars Geirdal, sem einnig skrifar handritið ásamt Kristófer og fleira fólki. „Sagan um hvernig þetta varð loksins að veruleika er orðin löng,“ segir Kristófer.

Einar Gunn, Laddi og leikstjórinn Kristófer Dignus.

„Þetta var einhver níu ár í hausnum á Jóni Gunnar og búið að fara alls konar hringi. Þetta var einu sinni farsi en færðist meira og meira í áttina að þessu ljúfsára drama og endaði þannig. Með þessum flinka, flinka leikara sem Laddi er,“ segir Kristófer og víkur að manninum sem átti grunnhugmyndina.

„Jón Gunnar er ótrúlega seigur. Hann er náttúrlega þessi frasakóngur og fólk tekur hann kannski stundum ekki alveg nógu alvarlega en Jón Gunnar er nefnilega djúpvitur maður en hann felur það bak við töffaraskapinn. Hann er með frábærar hugmyndir og ótrúlega seigur að koma þeim hægt og rólega á koppinn,“ segir Kristófer og horfir til framtíðar. „Og það er ofsalega gott að vinna með honum í þessu ferli og ég myndi vilja vinna meira með honum.“