Séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir, prestur í Hallgrímskirkju, segir að útfarir á þessu ári hafi verið óvenjulegar vegna COVID-19. „Fólk hefur tekið þessu ótrúlega vel og sýnt mikinn skilning og æðruleysi á þessum erfiðu tímum. Núna er eins og útfarir fari fram í kyrrþey. Fjölskyldur bjóða nánustu fjölskyldu, vinum og vinnufélögum. Gestir sem koma í útförina gera líka sitt til að passa upp á eins metra bil og koma með andlitsgrímu. Ef fólk kemur ekki með grímu höfum við boðið þær í Hallgrímskirkju. Það er reyndar mjög undarlegt að horfa yfir kirkjugesti á þessum óvenjulegu tímum,“ segir Irma. „En fólk er mjög skilningsríkt við þessar aðstæður,“ bætir hún við.

Fólk hefur tekið þessu ótrúlega vel og sýnt mikinn skilning og æðruleysi á þessum erfiðu tímum.

Irma Sjöfn segir að þetta ástand sé vissulega svolítið skrítið fyrir presta en þetta sé þó fyrst og fremst erfitt fyrir aðstandendur þess látna. Hún segir að athöfnin sé falleg þótt ekki sé margmenni. Ekki er heldur aðstaða til að bjóða upp á stóra kóra vegna fjöldatakmarkana í athöfnum auk þess sem þurfi gott bil milli söngvara. „Það er ekki hægt að hafa marga tónlistarmenn og gætt að öllum sóttvörnum í kirkjunni. Við reynum alltaf að gera kveðjustundina fallega líkt og sá látni óskaði eftir. Það eru bara færri kirkjugestir. Sömuleiðis eru erfidrykkjur minni um sig. Það þarf líka að huga að öllum sóttvörnum í þeim. Fólki þykir oft erfitt að geta ekki boðið öllum og hitt marga.“

Núna er 200 manna reglan í gildi og Irma bendir á að fólk sé hrætt þessa dagana um að samkomutakmarkanir verði hertar. „Það er virkilega óþægilegt fyrir fólk sem er í sorgarferli að hafa áhyggjur af þessum málum líka,“ segir hún. „Þetta var erfitt í vetur þegar einungis 20 manns máttu koma saman. Jarðarförin var með frekar einföldu sniði. Sumir töluðu um að hafa minningarathöfn síðar en svo veit maður ekki hvort úr því verður. Það reyna allir að gera sitt besta,“ segir hún.

Margir streyma jarðarförum í gegnum netið og þá eiga allir ættingjar og vinir kost á að fylgjast með. „Það er orðið mjög algengt að hafa jarðarförina í gegnum netið og er stórkostlegt að nýta tæknina. Þá geta allir verið með. Aðstandendur sjálfir útvega slíkan búnað en mörg fyrirtæki taka það að sér að streyma. Útfararstjórar hafa oft yfirlit yfir fyrirtæki sem annast streymi við útfarir. Þetta hefur allt farið vel af því að allir eru tilbúnir að leggja sig fram um að gera sitt besta. Sömuleiðis hlakka allir til þegar lífið verður eðlilegt á ný,“ segir hún.