Það kom Svavari Hávarðs­syni, veiði­manni og rit­stjóra Fiski­frétta, nokkuð spánskt fyrir sjónir að sjá japanskan Koi fisk synda makinda­lega um í Elliða­ám, ná­lægt Ár­bæjar­stíflu, í gær­kvöldi.

Svavar var að svipast um eftir laxi sem höfðu komið sér fyrir á hefð­bundnum stað þegar hann náði mynd­bandi af þessum gullna ný­liða í ánni.

Laxarnir lúffuðu fyrir Nemó litla

„Það kom mér á ó­vart þegar Nemó litli kom á harða sundi og fór að keppa við stóra og smá laxa um legu­stað,“ segir Svavar á Face­book síðu sinni. „Laxarnir lúffuðu undan­tekningar­laust undan þessum litla meistara. Síðast sá ég hann á harða­sundi í áttina að Kerlingar­flúðum.“

Á­huga­menn telja að fiskurinn sé af tegundinni Koi en þeir geta orðið mjög gamlir, jafn­vel allt að hundrað ára. Lík­legt er að fiskurinn í Elliða­ánum hafi verið gælu­dýr sem hafi verið sleppt í ánna þar sem hann finnst ekki villtur á Ís­landi.