Eftir tvo góða heimasigra hjá íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta í síðasta mánuði á liðið góða möguleika á að tryggja sér sæti á Heimsmeistaramótinu sem verður haldið í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi 2023.

Fyrirliði liðsins, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, er nokkuð bjartsýn og segir framhaldið vera í höndum liðsins. „Stefnan er auðvitað að komast á HM. Við erum með sterkum liðum í riðli eins og Hollandi og Tékklandi þannig að allir leikir eru mikilvægir. Sigurinn heima á móti Tékklandi var mjög mikilvægur og ég er spennt fyrir framhaldinu.“

Gunnhildur hóf ferilinn hjá Stjörnunni í Garðabæ en hefur frá árinu 2013 leikið að mestu leyti sem atvinnumaður erlendis, lengst af í Noregi en einnig í Ástralíu og loks í Bandaríkjunum þar sem hún spilar í dag með liði Orlando Pride í sólinni í Flórída.

Maki Gunnhildar er Erin McLeod (t.v.). Erin er markmaður Orlando Pride, hefur spilað yfir 100 landsleiki fyrir Kanada og unnið gull og brons á Ólympíuleikum. Auk þess er hún listakona, hannar tattú og rekur eigið fyrirtæki.

Breytti viðhorfinu

Hún segir fótboltann hafa kennt sér svo óendanlega margt um lífið. „Fótboltinn hefur kennt mér að leggja hart að mér í öllum markmiðum, að hræðast ekki að gera mistök eða að mistakast almennt í lífinu. Ég hef lært að vera leiðtogi og að taka áhættu. Um leið hef ég lært hvernig á að vinna með öðrum og hvað jákvætt hugarfar er mikilvægt. Ég hef lært að einbeita mér að hlutum sem ég get breytt en ekki að einhverju sem ég get ekki breytt.“

Hún nefnir sem dæmi þegar hún sleit krossband í þriðja sinn en þá hafi hún lært mikið um sjálfa sig. „Þá lærði ég hvað hugarfar er mikilvægt. Á þeim tímapunkti ætlaði ég að hætta í fótbolta. En þá breytti ég viðhorfi mínu og hugsaði með mér að ég gæti ekki stjórnað því að ég væri meidd en ég gæti stjórnað hvað ég gæti gert til að koma mér til baka í besta forminu mínu.“

Hluti systkinahópsins úti í Flórída. Fjölskyldan Gunnhildar Yrsu er mjög samhent.

Byrjaði snemma í boltanum

Segja má að fótboltaferillinn hafi byrjað með óvenjulegum hætti hjá Gunnhildi. Móðir hennar hóf sérnám í læknisfræði í Bandaríkjunum þegar hún var í þriðja bekk og segir hún að móðir hennar hafi skráð hana í fótbolta svo hún gæti lært betur ensku og um leið eignast vini. „Síðan þá hef ég elskað fótbolta. Þótt ég hafi prófað margar íþróttir á yngri árum stóð fótboltinn alltaf upp úr. Þegar ég var yngri þá vissi ég ekki að það væri hægt að verða atvinnumaður í fótbolta þannig ég var bara að gera þetta til gamans. Svo fór ég á leik með Philadelphia í bandarísku deildinni en Margrét Ólafsdóttir spilaði þar. Hún gaf mér miða á leikinn og ég man að ég hugsaði með mér: Mig langar að vera eins og hún. En svo hugsaði ég ekki mikið út í það fyrr en ég hóf háskólanám í Bandaríkjunum en þá lagði ég alla áherslu á fótboltann og sá um leið að ég vildi leggja allt mitt í að spila fótbolta og komast í landsliðið.“

Gunnhildur spilar í dag með Orlando Pride í Flórída. Hún segist mjög ánægð þar, nýir eigendur hafi komið að klúbbnum og framtíðin sé björt. „Ég er spennt fyrir því að taka þátt í þeirri uppbyggingu. Árangurinn í ár var þó ekki nógu góður og undir væntingum. Ég fékk samt að spila mikið og þróa minn leik en hefði viljað ná betri úrslitum. Það fylgir mikið álag að spila í þessari deild enda mikið um ferðalög. Það breytir þó miklu að systir mín býr hér í Orlando og mamma á hús hér þannig að hún kemur stundum í heimsókn. Svo spilar maki minn, Erin Mcleod, í sama liði sem er frábært. Það hjálpar að hafa maka sinn með til að halda jafnvægi í lífinu. Í augnablikinu er ég mjög ánægð hjá Orlando Pride en auðvitað mætti bæta suma hluti.“

Hluti fjölskyldunnar að fylgjast með Gunnhildi Yrsu á leik fyrr á árinu.

Framtíðin er björt

Eftir tíu ára landsliðsferil stendur margt upp úr en þó helst að hafa kynnst öllum stelpunum. „Svo átti ég aldrei von á að spila svona margar leiki með landsliðinu og hvað þá að bera fyrirliðabandið sem hefur verið mikill heiður. Ég var mikið meidd þegar ég var yngri og þótt ég stefndi alltaf á landsliðið þá var það oft langsótt. En varðandi framtíð landsliðsins þá gæti ég ekki verið spenntari. Ungu stelpurnar eru frábærar og munu leiða þetta lið enn lengra. Þær eru sigurvegarar og ætla sér langt.“

Kominn tími á breytingar

Mjög margt hefur breyst frá því Gunnhildur spilaði sinn fyrsta landsleik og umgjörðin er allt önnur í dag að hennar sögn. „Ég er auðvitað mjög ánægð með þau stóru skref sem kvennaknattspyrnan hefur tekið undanfarin ár en það er enn langt í land. Þetta verður áframhaldandi barátta og ég mun taka þátt í henni eins lengi og ég get. Kvennaboltinn er að verða sýnilegri og það verður mjög mikilvægt í baráttunni.“

Gunnhildur segir mikla kvenfyrirlitningu einkenna fótboltann að og kominn sé tími á breytingar. „Ég hef tengst mikið MeToo-baráttunni, sérstaklega nú í ár eftir allt sem gerðist hjá Utah og í deildinni hjá okkur. Það er búið að vera magnað að sjá viðbrögð og baráttu hjá leikmönnum deildarinnar. Þessi barátta er langt frá því að vera búin en þetta er allt á réttri leið. Ég vona að í framtíðinni munum við ekki tala um kvenna- og karlaknattspyrnu, heldur að þetta verði bara fótbolti. Að við verðum ekki alltaf að skilgreina hlutina sem kvenna þetta og hitt. Að konur og karlar verði jöfn í samfélaginu og að kyn skipti ekki máli.“

Liðsmenn Orlando Pride klæddust bolum merktum Protect trans kids, til að mótmæla fyrirhugaðri lagasetningu sem hefði bannað trans börnum að stunda íþróttir.

Lítill frítími utan boltans

Lífið snýst svo sannarlega um fótbolta og flestir dagar undirlagðir æfingum og leikjum. Gunnhildur hefur lokið námi í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík og er nú að taka tvö fög til að bæta við námið. „Utan þess þá málum við Erin og búum til ýmis listaverk. Ég les líka mikið og við förum í ævintýraferðir með hundinn okkar. Svo erum við nokkrar í liðinu sem förum vikulega út að borða en þá förum við á mismunandi veitingastaði og skoðum matarmenninguna í Orlando. Á frídögum okkar bjóða stelpurnar okkur oft í bátsferð.“

Tekur einn dag í einu

Gunnhildur er 33 ára og því eðlilega farin að huga að starfsferli eftir fótboltann. „Eftir fótboltann stefni ég á að verða styrktarþjálfari hjá einhverju liði eða klúbbi. Styrktarþjálfun er að verða mikilvægari í fótbolta og ég vil taka þátt í uppbyggingu hennar í kvennaboltanum. Svo langar mig að vinna með börnum með einhverfu og halda fótboltanámskeið fyrir börn með sérþarfir.“

Mikilvægast sé þó að vera hamingjusöm og eiga fjölskyldu. „Síðan vil ég halda áfram baráttunni fyrir minnihlutahópa. Svo er stefnan sett á maraþonhlaup og eina góða Iron man-keppni. Hvar ég mun búa skiptir ekki miklu máli svo framarlega sem ég sé bara einu flugi frá fjölskyldunni minni. Annars ætla ég bara að taka einn dag í einu, njóta þess að spila fótbolta og reyna að gera umhverfið í kringum mig betra. Þannig vil ég leggja mitt af mörkum fyrir yngri kynslóðir og skilja við hlutina betri en þegar ég kom að þeim.“

Gunnhildur Yrsa var valin maður leiksins af stuðningsmönnumí fyrsta leik sínum með Orlando Pride.