Haukur Braga­son segir Jakob Bjarnar Grétars­son, blaða­mann á Vísi, eiga virki­lega bágt eftir að Jakob sakaði Hauk um að vera tæki­færis­sinna og að hann hafi áður lamið „homma í húsa­sundum.“ Haukur segir á Twitter að fjöl­margir hafi spurt hann út í hvaða mál Jakob sé að tala um en hann tekur fram að þetta sé einungis þvæla.

Orða­skiptin áttu sér stað eftir að Jakob sagði á Twitter að „ef við eigum ekki að sitja uppi með Borisa og Trumpa á öllum póstum verður góða fólkið að hafa hemil á sér,“ en því svaraði Haukur með „það er margt sem við góða fólkið höfum á sam­viskunni,“ og í kjöl­far þess kom á­sökun Jakobs á hendur Hauks.

„Ekkert nema illa skrifuð sam­líking“

„Þú ert fyrst og fremst tæki­færisinni sem ert að ríða til­tekna öldu; gaurinn sem áður lamdir homma í húsa­sundum þar til það datt úr tísku og vilt nú berja meinta homma­hatara því þú heldur að það komi sér vel,“ sagði Jakob á Twitter og sagðist ekki skil­greina Hauk sem „góða fólkið.“

„Ég ætlaði ekki að svara þessu rugli en þar sem fólk hefur spurt mig og vini mína hvaða máls Jakob Bjarnar vísar hér til þá vil ég blása á kjafta­sögur og á­rétta að þetta er ekkert nema illa skrifuð sam­líking og þvæla í manni sem á bágt. Ég hef aldrei lagt hendur á nokkurn mann,“ sagði Haukur í tísti í gær­kvöldi.

Haukur segist í samtali við Fréttablaðið ekki hafa neitt meira að segja um málið.