Jana Maren Óskarsdóttir er annar eigandi verslunarinnar Hringekjunnar, þar sem viðskiptavinir geta selt notuð föt í fallegu umhverfi. Auk þess að bjóða upp á sölubása fyrir viðskiptavini er Hringekjan einnig með verkefnið Hring eftir hring, þar sem listafólk glæðir eldri föt nýju lífi.

„Í gær settum við í loftið verkefni með Jóni Sæmundi,“ segir Jana Maren. Hún segir að textíll­inn sem notaður er í verkefnið sé það sem til fellur afgangs. „Það eru ósóttar vörur og alls konar, sem við erum að reyna að nýta eins og við getum, áður en við förum með það í hjálparstarf. Seinasta árið erum við búin að safna níu jökkum og Jón Sæmundur hefur tekið þá að sér og málað myndir aftan á jakkana.“

Það eru ósóttar vörur og alls konar, sem við erum að reyna að nýta eins og við getum, áður en við förum með það í hjálparstarf.

Í gær fóru fyrstu jakkarnir frá Jóni Sæmundi í sölu. „Á næstu dögum og vikum detta inn fleiri jakkar,“ segir Jana. Hugmyndin kom til er Jana var stödd á sýningu hjá Jóni Sæmundi og sá jakka, og spurði hann í framhaldinu út í mögulegt samstarf.

„Við sjáum fyrir okkur mismunandi samstarf með listafólki þar sem hver og einn nýtir textíl sem til fellur hvert sinn. Líka til að búa til „wearable art“, sem er einstakur hlutur og list og gefur flíkinni nýjan tilgang,“ segir Jana. „Í framhaldi af þessu höfum við verið með aðra listamenn á undan og svo ætlum við að halda þessu áfram.“

Jana kveðst hafa unnið við sölu á notuðum fatnaði meira og minna síðan hún var sextán ára gömul.

Jana Maren er annar eigenda Hringekjunnar og hefur alla tíð haft mikinn áhuga á endurnýtingu og eldri munum.
Mynd/Aðsend

„Ég hef alltaf verið hrifin af gömlu. Mín búslóð er rosamikið svona gamalt og endurnýtt dót og ég hef alltaf verið þeim megin í lífinu. Hringekju-verkefnið kom þannig til að við sem misstum vinnuna í Covid vildum búa eitthvað til, úr einhverju sem maður kann úr einhverju sem var til í landinu,“ segir hún.

„Svo þekktum við mikið af listafólki og tónlistarfólki sem við vildum draga inn í þetta samfélag sem við vorum búin að búa okkur til.“

Hringekjan stendur fyrir reglulegum viðburðum og fær reglulega til sín plötusnúða. Hægt er að fylgjast með á vefsíðu Hringekjunnar, á hringekjan.is.