Niall Horan, eða Njáll eins hann heitir upp á íslensku, er þekktastur fyrir að vera í bresk-írsku hljómsveitinni One Direction. Hljómsveitin var stofnuð í London árið 2010 og gerði samning við útgáfufyrirtæki Simons Cowell eftir að hafa landað þriðja sætinu í breska X-Factor.

One Direction sló rækilega í gegn þegar fyrsta platan, Up All Night, kom út í árslok 2011. Hún vakti strax mikla athygli og fyrsta smáskífan, What Makes You Beautiful, þaut upp vinsældalista um heim allan. Platan komst í toppsæti bandaríska Billboard 200 listans og sá árangur kom sveitinni í Heimsmetabók Guinness en bresk hljómsveit hafði ekki náð slíkum árangri áður.

Undanfarin tvö ár hefur Niall einbeitt sér að sólóferlinum, sem hefur gengið mjög vel. hann syngur gjarnan hugljúfar ballöður í bland við létt popp. Fyrsta sólóplatan hans, Flicker, kom út í fyrra og náði á topp vinsældalista í tuttugu löndum, svo sem Írlandi og Bandaríkjunum. 

Lögin This Town, Slow Hands og On the Loose náðu miklum vinsældum. Niall þykir vera undir áhrifum frá Frank Sinatra og Dean Martin en í uppvextinum hlustaði Niall mikið á tónlist þeirra. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika og í sumar söng hann dúett með Taylor Swift frammi fyrir þúsundum áhorfenda.

Niall þykir hafa klassískan fatastíl og sést oftast í jakkafötum á rauða dreglinum. Þegar hann er á sviði verða hins vegar gallabuxur og bolir helst fyrir valinu.