Neysla á unnum kjöt­vörum á borð við pylsur eykur líkurnar á hjarta­sjúk­dómum og dauðs­föllum um­tals­vert. Þetta kom fram í nærri ára­tugar­langri rann­sókn sem unnin var í McMa­ster-há­skólanum í Kanada.
Rann­sóknin var ný­verið birt í American Journal of Clini­cal Nut­rition. Í um­fjöllun vef­síðunnar Healt­hline kemur fram að sér­fræðingar telji á­stæðuna fyrir niður­stöðunum felast í ó­hóf­legu magni salts, rot­varnar­efna og fitu í unnum kjöt­vörum.

Jafn­gildi tveggja pylsna

Mahs­hid Dehg­han, einn höfunda rann­sóknarinnar, sagði niður­stöðurnar gefa til kynna að neysla á ekki nema 150 grömmum af unnu kjöti á viku auki líkurnar á hjarta­sjúk­dómum um 46 prósent og líkur á dauðs­falli um 51 prósent saman­borið við þau sem ekki neyti unninna kjöt­af­urða. Þetta sé jafn­gildi tveggja pylsna á viku.

Dehg­han telur skað­leg á­hrif unninna kjöt­af­urða ekki einungis stafa af miklu magni mettaðrar fitu eða kólesteróls þar sem svipað magn beggja sé að finna í ó­unnum kjöt­af­urðum. Unnar kjöt­af­urðir flokkast undir kjöt sem hefur verið reykt, saltað, grafið eða er með við­bættum rot­varnar­efnum.

Neysla á ekki nema 150 grömmum af unnu kjöti á viku auki líkurnar á hjarta­sjúk­dómum um 46 prósent
Stefán Karlsson

Um­fangs­mikil rann­sókn

Í rann­sókninni var matar­æði og heilsu­far 134,297 ein­stak­linga frá 21 landi skoðað yfir tæp­lega tíu ára tíma­bil. Fylgst var með kjöt­neyslu þátt­tak­enda og tíðni hjarta­sjúk­dóma. Sam­kvæmt Dehg­han fólst helsta á­skorun rann­sóknarinnar í því að ekki var hægt að greina frá mis­munandi eldunar­að­ferðum á milli landa. Það hafi hugsan­lega haft ein­hver á­hrif.
Lisa K. Diewald, næringar­fræðingur hjá MacDonalds-stofnuninni í Villa­nova-hjúkrunar­há­skólanum, segir rann­sóknir af þessu tagi, svo­kallaðar at­hugunar­rann­sóknir (e. ob­servational stu­dies), gefa til kynna á­kveðið sam­band eða tengsl milli þátta en geta ekki sagt til um beint or­saka­sam­hengi.

Diewald segir at­hugunar­rann­sóknir þar sem skoðað er sam­band á milli matar­æðis og heilsu­fars­legrar á­hættu gjarnan byggðar á því að þátt­tak­endur svari sjálfir spurninga­listum þar sem spurt er að því hversu oft við­komandi neyti matar. Þetta geti haft í för með sér skekkju­á­hrif á niður­stöður rann­sókna vegna þátt­tak­enda sem ýmist of­meta eða van­meta það hversu oft þeir borða.
Hún bendir þá á að þetta hafi senni­lega ekki mikil á­hrif á þessa til­teknu rann­sókn vegna stærðar hennar og um­fangs. Enn fremur hafi þau sem unnu að rann­sókninni verið vel þjálfuð í notkun spurninga­lista af þessu tagi sem geri niður­stöður rann­sóknarinnar á­reiðan­legri.

Rautt kjöt og krabba­mein

Í um­fjöllun Healt­hline er vísað til hjarta­læknisins Johanna Contreras sem segir ljóst að mikil neysla á unnum kjöt­vörum hafi slæm á­hrif á heilsuna.
Hún telur að það sé ekki síst vegna þess hve mikið salt sé að finna í þessum vörum sem hækki blóð­þrýsting, valdi þyngdar­aukningu og auki líkur á hjarta­sjúk­dómum.
Þessi þrjú at­riði, mikið salt­magn, mettuð fita og til­búin rot­varnar­efni auki líkur á dauðs­föllum af völdum hjarta­sjúk­dóma.
Þessar niður­stöður koma senni­lega ekki mörgum á ó­vart en fleiri rann­sóknir hafa leitt í ljós skað­semi á­kveðinna kjöt­af­urða.

Árið 2015 gaf Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin það út að rautt kjöt væri að öllum líkindum krabba­meins­valdandi en það er talið auka líkur á krabba­meini í ristli, brisi og blöðru­háls­kirtli á­samt því að auka líkur á hjarta­sjúk­dómum.

Að­stand­endur rann­sóknarinnar hvetja fólk til þess að draga úr neyslu á unnum kjöt­vörum, gæta sín á mettaðri fitu og neyta meira af af­urðum úr jurta­ríkinu. Þó sé einnig mikil­vægt að hafa í huga að unnar kjöt­líkisaf­urðir geti líka inni­haldið mikið magn salts, sykurs og rot­varnar­efna.
„Besta ráðið sem ég get gefið er að forðast unnin mat­væli al­mennt og reyna fremur að neyta náttúru­legs og líf­ræns matar; græn­metis, á­vaxta og ó­mettaðrar fitu,“ segir Contreras.