Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, hlaut í gær hvatningarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) en verðlaunin eru veitt konu í atvinnulífinu fyrir athyglisvert frumkvæði.

Hún segir það mikinn heiður að fá þessa hvatningarviðurkenningu enda sýni hún að miklar væntingar séu gerðar til starfsfólks og tækni Carbfix. „Ísland getur skapað sér mikil tækifæri með markvissri uppbyggingu græns og loftslagsvæns iðnaðar sem og útflutningi á hugviti. Ég lít á verðlaunin sem hvatningu til þess að við höldum áfram að leggja okkar af mörkum þar.“

Fjölbreytileikinn skiptir máli

Hún segir það skipta miklu máli fyrir greinina að auka hlut kvenna þar á næstu árum. „Það skiptir öllu máli að þessi nýi og loftslagsvæni iðnaður sem Carbfix er hluti af sé frá upphafi byggður upp með alhliða jafnrétti að leiðarljósi. Konur hafa leitt þróun og uppbyggingu Carbfix allar götur frá árinu 2007 og málaflokkurinn er okkar hjartans mál. Þá er ég ekki bara að vísa til jafnréttis kynjanna heldur fjölbreytileika almennt enda er margsannað að jafnrétti og fjölbreytni bætir ákvarðanatöku og skilar auknum árangri.“

Niðurdælingarholur Carbfix í Jarðhitagarði ON á Hellisheiði. AÐSEND/CARBFIX

Íslenskt hugvit

Starfsemi Carbfix felur í sér frekari þróun og uppbyggingu kolefnisförgunar, segir Edda Sif. „Carbfix-tæknin byggir á íslensku hugviti sem þróað var í samvinnu við alþjóðlegt teymi vísindafólks. Koldíoxíðið er fangað úr útblæstri eða beint úr andrúmslofti, leyst í vatni og dælt djúpt niður í berglög þar sem það steinrennur á innan við tveimur árum og verður hluti af berggrunninum. Aðferðin hefur verið sannreynd sem hagkvæm og umhverfisvæn leið til að binda koldíoxíð varanlega og koma þannig í veg fyrir áhrif þess á loftslagið.“

Spennandi verkefni fram undan

Mörg stór og spennandi verkefni eru fram undan hjá Carbfix á næstu árum, meðal annars þarf að byggja upp innviði til föngunar og förgunar koldíoxiðs á stórum skala til að loftslagsmarkmið heimsins náist. „Carbfix tekur virkan þátt í vegferðinni með því að byggja upp ný loftslagsvæn verkefni og innviði þeim tengda innanlands sem utan samhliða því að halda áfram frekari þróun Carbfix-tækninnar. Áhersla næstu missera er að sýna fram á fýsileika og hagkvæmni þess að nota Carbfix-tæknina innan fjölbreyttari geira og við fjölbreyttari aðstæður en hingað til, þar með talið innan stóriðju og með því að nota sjó til niðurdælingar.“

Hún segir fjölda áskorana fylgja uppbyggingu og mótun nýrrar starfsemi fyrirtækisins. „Þar má meðal annars nefna að regluverk ólíkra markaðssvæða er ekki nægjanlega mikið í takt við öra uppbyggingu loftslagsaðgerða sem þörf er á auk þess sem stjórnvöld og sjóðir mættu styðja betur við þá aðila sem ganga fram fyrir skjöldu og taka þátt í frumkvöðlaverkefnum á sviði loftslagsmála.“

Nánari upplýsingar má finna á carbfix.com.